Elliðaárródeó í dag-Reykjavíkurbikar á morgun - 2010/04/21 21:03 Ródeó, Reykjavíkurbikar og Vorhátíð
Sumardagskrá Kayakklúbbsins hefst með hvelli á föstudaginn í næstu viku þegar keppt verður í Elliðaárródeóinu og daginn eftir verður blásið til Vorhátíðar Kayakklúbbsins um leið og keppt verður um Reykjavíkurbikarinn.
Báðar keppnirnar henta byrjendum vel. Leitun er að jafnöruggum leikstað og Holunni í Elliðaárdal og róðraleiðin umhverfis Geldinganes er yfirleitt þægileg, nema veðrið setji mikið strik í reikninginn. Í Reykjavíkurbikarnum er boðið upp á tvær vegalengdir; 3 km róður og 10 km róður.
Vorhátíð Kayakklúbbsins var haldin í fyrsta skipti í fyrra. Til stendur að bjóða almenningi að prófa búnað klúbbsins og e.t.v. eru einhverjir kayakmenn- og konur reiðubúnar til að leyfa bláókunnugu fólki utan úr bæ að setjast í bátana sína. Björgunarsveitin Kjölur á Kjalarnesi sér um öryggisgæslu.
Vakni einhverjar spurningar er hægt að hafa samband við Rúnar Pálmason (runar.palmason@gmail.com) 8993745 vegna Reykjavíkurbikars og Harald Njálsson (haranja@centrum.is) eða Önnu Láru Steingrímsdóttur (annalara@parlogis.is) vegna Elliðaárródeós.
30. apríl (fös.)
Elliðaárródeó
Mæting klukkan 13 og keppni hefst klukkan 13:30. Keppt við holuna í Elliðaám sem er á bak við Toppstöðina (stóra, brúna húsið) og fyrir neðan Rafstöðvarhúsið í Elliðaárdal. Keppt verður í holufimi og almennum fíflagangi sem hægt er að stunda í holu í straumi. Í ródeóinu er alltaf fín stemning. Byrjendur eru velkomnir enda er auðvelt að gæta að öryggi þeirra á þessum heimavelli Kayakklúbbsins.
1. maí (lau.)
Reykjavíkurbikarinn
Ræst klukkan 10:00. Keppt er í tveimur vegalengdum, 10 km og 3 km. Róið er réttsælis umhverfis Geldinganesið og síðan u.þ.b. 3 km hringur, annað hvort út fyrir hólmann í Blikastaðakrónni eða bauju (fer eftir sjávarhæð) og til baka og er sá leggur um leið styttri brautin í keppninni. Keppnin er hluti af Vorhátíð Kayakklúbbsins en þá stendur m.a. til að kayakmenn leyfi gestum og gangandi að setjast í bátana og prófa. Ýmsar uppákomur eru fyrirhugaðar. Reykjavíkurbikarinn er elsta kayakkeppni landsins. Sumarið byrjar ekki hjá sjókayakmönnum nema þeir kíki á Reykjavíkurbikarin