Róður í Hvalfirði á Jónsmessunótt

28 jún 2010 13:23 #1 by SAS
Fleiri myndir er að finna á
picasaweb.google.com/sjokayak/20100625JonsmessuroUr#

kv
Sveinn Axel

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

27 jún 2010 17:21 - 27 jún 2010 17:41 #2 by Sævar H.
Gaman að heyra þetta með lundana. Geirshólmi hefur verið vinsælt búsvæði lundanna yfir varptímann.
Það er eins og með lömbin á vorin - við dáumsts að þessum krílum,lömbunum, og á haustin er það steiktur hryggur af þeim sem heillar.
Í lok sumars er viðhorfið til lundans svipað- góður á diskinn-reyktur eða steiktur.

Lundar
(myndin er fengin að láni af vef "Icelandontrack")
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

27 jún 2010 11:49 - 28 jún 2010 11:48 #3 by Gíslihf
Já, þetta var fín Jónsmessunótt eins og endranær - reyndar líklega einum degi á eftir hinni réttu dagsetningu, en það hefur þann kost að rekast ekki á miðnæturhlaupið í Reykjavík.
Við þökkum Gunna fyrir að halda vel utan um viðburðinn og öðrum sem gegndu hlutverkum til að allt gengi vel og örugglega fyrir sig.
Við Lilja völdum að hafa ferðina heldur styttri en hópurinn og því höfum við svar við vangaveltum Sævars um lundana í sínum ágæta og fræðandi pistli hér á undan.
Þegar við komum að Geirshólma, var mikill fjöldi fugla á sjónum vestan við okkur og þeir fældust upp við róður okkur. Þetta voru mörg hundruð lundar og fóru þeir austur fyrir hólmann nær Þyrlinum. Komið var yfir miðnætti og allir sómakærir lundar sofa annaðhvort djúpt inni í holum sínum þar til sól fer að hækka á lofti í austri eða í góðum félagsskap úti á sjó.
Á ferð minni s.l. sumar við fuglabjörg, stundum um nótt, sá ég bjargfuglinn sitja og sofa á sjónum í stórum breiðum og að morgni flaut gulbrún brækja á sjónum eftir drit þeirra. Eldri vinur minn í Vestmannaeyjum, Súlli á Saltaberegi, lét eitt sinn fyrirberast á efri árum uppi á Súlnaskeri yfir nótt. Þeir sem þar hafa verið við fuglatekju vita að garg súlunnar hljóðnar ekki og er eins og samfellt óstöðvandi vélarhljóð. Eftir lágnættið varð Súlli agndofa þegar allt samfélag fuglanna hljóðnaði og kyrrð lagðist yfir Súlnasker um hríð. Súlli hafði farið í Súlnasker allt frá æskuárum en aldrei heyrt þar kyrrð áður.
Að lokum koma tveir aðrir merkisfuglar (merkismenn) í hugann. Eitthvað spurðist til Örlygs þarna um kvöldið en hann var ekki í hópnum og ég veit síðan ekki hvort hann svaf á sjónum eða inni í lundaholu. Þórólfur lenti í því óhappi að missa yfir sig tebolla og brenna sig og sneri heim fyrir róðurinn. Við óskum honum góðs bata.

Kv.
GHF.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

26 jún 2010 23:57 #4 by Gunni
Góður róður. Frábært hvað það komu margir. Hvalfjörður er gott róðarsvæði og auðvelt að færa sig til eftir veðri. Við eigum Maríuhöfnina til góðs að ári.
Mínar myndir á picasaweb:
Jónsmessuróður 2010

Þær eru líka á facebook.

Takk fyrir mig.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

25 jún 2010 14:47 - 27 jún 2010 16:40 #5 by Sævar H.
Jónsmessuróðurinn í Hvalfirðinum er orðinn fastur liður í róðrum Kayakklúbbsins. Og um kl. 21 þann 24.júní mættu 26 ræðarar í Hvammsvík i Hvalfirði til Jónsmessuróðurs.

Þá var strekkingsvindur af NNA með verulegum kröppum sjó allt frá Þyrilsnesi og út með Hvalfirði en samt hlýtt og bjart veður.

Áætlað hafði verið að róa frá Hvammsvík og í hina fornu höfn Maríuhöfn í Laxárvogi og enda síðan róðurinn á Hvalfjarðareyri.
Samkvæmt veðurspá var ljóst að þessi vindstrengur og aldan krappa myndi haldast allt til miðnættis á þessari áætluðu leið.

Með tilliti til samsetningar hópsins voru mál stokkuð upp og ákveðið að keyra inn að Miðsandi í Hvalfjarðabotni og róða þaðan.
Það yrði mun rómantískari róður í blíðunni sem þar var en að fara í átakaróður að Hvalfjarðareyri.

Ýtt var síðan úr vör við bryggjuna á Miðsandi og róið þvert yfir að Þyrilsnesi með viðkomu við Harðarhólma (Geirshólma) Þangað var róið á sléttum sjó.
Við Harðarhómla er venjulega mikil mergð lunda um þetta leiti-en nú var enginn lundi sýnilegur. Sennilega fæðuskorti í hafinu um að kenna.

Við söknuðum lundans.
Síðan var róið yfir að og með Þyrilsnesinu og sveigt fyrir Geirstangann og inn Botnsvoginn.
Tekið var land við Harðarhæð á Þyrilsnesi og drukkið Jónsmessumiðnæturkaffi.

Almennt var talið að of mikil fyrirhöfn yrði að fara úr öllum kayakgallanum til þess eins að velta sér fáklædd í Jónsmessudögginni.
Þeim þætti var því sleppt.

Meðan kaffið var drukkið fengum við heimsókn . Dúntekjumaður æðarvarpsins var í söfnunarferð með pokaskjóðu . Hann gerði athugasemd við þessa óboðnu gesti í æðarvarpið um hábjargræðistímann- en samt meinlaust.

Skammt undan fjöruborðinu þarna við Harðarhæðina lá frönsk skúta. Heilsað var uppá skipverja og kom þá í ljós hátt menningarstig ræðara- þeir töluðu margir frönsku og sum sem innfæddir. Sannalega óvænt uppákoma fyrir þá frönsku að verða umkringdir kayakræðurum sem hendi væri veifað.

Snúið var við til baka þarna við frönsku skútuna. Þá var vindur farinn að blása og nú úr austri. Nokkur alda myndaðist og veitti okkur þægilegt lens yfir á Hvalfjarðaströndina.

Stefna var tekin á skerið Stóraklakk sem er eitt af hinum mörgu Miðsandsskerjum sem liggja skammt utan strandar. Og róðrinum lauk síðan í fjörunni innan við bryggjuna á Miðsandi.

Allt skipulag ferðarinnar hjá Gunna var mjög gott og okkar reyndustu kayakræðarar ,Sveinn Axel, Eymi, Lárus ásamt Gunna héldu utan um hópinn eftir því sem tilefni var og þá einkum á þveruninni frá Þyrilsnesinu að Miðsandsskerjunum – á lensinu.

Þetta var frábær Jónsmessuróður Kayakklúbbsins og er kayakfélögum þökkuð samfylgdin um Hvalfjörð á Jónsmessunótt.

Þverað frá Þyrilsnesi að Miðsandsskerjum á Hvalfjarðarströnd


Myndir frá róðrinum
picasaweb.google.com/1092184226548600605...#5486731691617850786
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum