Jónsmessuróðurinn í Hvalfirðinum er orðinn fastur liður í róðrum Kayakklúbbsins. Og um kl. 21 þann 24.júní mættu 26 ræðarar í Hvammsvík i Hvalfirði til Jónsmessuróðurs.
Þá var strekkingsvindur af NNA með verulegum kröppum sjó allt frá Þyrilsnesi og út með Hvalfirði en samt hlýtt og bjart veður.
Áætlað hafði verið að róa frá Hvammsvík og í hina fornu höfn Maríuhöfn í Laxárvogi og enda síðan róðurinn á Hvalfjarðareyri.
Samkvæmt veðurspá var ljóst að þessi vindstrengur og aldan krappa myndi haldast allt til miðnættis á þessari áætluðu leið.
Með tilliti til samsetningar hópsins voru mál stokkuð upp og ákveðið að keyra inn að Miðsandi í Hvalfjarðabotni og róða þaðan.
Það yrði mun rómantískari róður í blíðunni sem þar var en að fara í átakaróður að Hvalfjarðareyri.
Ýtt var síðan úr vör við bryggjuna á Miðsandi og róið þvert yfir að Þyrilsnesi með viðkomu við Harðarhólma (Geirshólma) Þangað var róið á sléttum sjó.
Við Harðarhómla er venjulega mikil mergð lunda um þetta leiti-en nú var enginn lundi sýnilegur. Sennilega fæðuskorti í hafinu um að kenna.
Við söknuðum lundans.
Síðan var róið yfir að og með Þyrilsnesinu og sveigt fyrir Geirstangann og inn Botnsvoginn.
Tekið var land við Harðarhæð á Þyrilsnesi og drukkið Jónsmessumiðnæturkaffi.
Almennt var talið að of mikil fyrirhöfn yrði að fara úr öllum kayakgallanum til þess eins að velta sér fáklædd í Jónsmessudögginni.
Þeim þætti var því sleppt.
Meðan kaffið var drukkið fengum við heimsókn . Dúntekjumaður æðarvarpsins var í söfnunarferð með pokaskjóðu . Hann gerði athugasemd við þessa óboðnu gesti í æðarvarpið um hábjargræðistímann- en samt meinlaust.
Skammt undan fjöruborðinu þarna við Harðarhæðina lá frönsk skúta. Heilsað var uppá skipverja og kom þá í ljós hátt menningarstig ræðara- þeir töluðu margir frönsku og sum sem innfæddir. Sannalega óvænt uppákoma fyrir þá frönsku að verða umkringdir kayakræðurum sem hendi væri veifað.
Snúið var við til baka þarna við frönsku skútuna. Þá var vindur farinn að blása og nú úr austri. Nokkur alda myndaðist og veitti okkur þægilegt lens yfir á Hvalfjarðaströndina.
Stefna var tekin á skerið Stóraklakk sem er eitt af hinum mörgu Miðsandsskerjum sem liggja skammt utan strandar. Og róðrinum lauk síðan í fjörunni innan við bryggjuna á Miðsandi.
Allt skipulag ferðarinnar hjá Gunna var mjög gott og okkar reyndustu kayakræðarar ,Sveinn Axel, Eymi, Lárus ásamt Gunna héldu utan um hópinn eftir því sem tilefni var og þá einkum á þveruninni frá Þyrilsnesinu að Miðsandsskerjunum – á lensinu.
Þetta var frábær Jónsmessuróður Kayakklúbbsins og er kayakfélögum þökkuð samfylgdin um Hvalfjörð á Jónsmessunótt.
Þverað frá Þyrilsnesi að Miðsandsskerjum á Hvalfjarðarströnd
Myndir frá róðrinum
picasaweb.google.com/1092184226548600605...#5486731691617850786