Þá er komið að einum aðal viðburði ársins í straumvatninu.
Róið verður í Austari og Vestari jökulsá, allt eftir getu ræðara. Mæting er á föstudeginum 23. júlí í aðstöðu Arctic Rafting að Hafgrímsstöðum í Skagafirði. En þar er jafnvel hægt að slá upp tjaldbúðum. Ef það gengur ekki verður tjaldað við Steinsstaðaskóla. Á laugardeginum fara vanir kayakræðarar í Austari og einhver slatti af fólki ætlar að skella sér á gúmmíbát niður Austari, hinir skellar sér í hina rómuðu Vestari jökulsá. Um kvöldið verða sagðar frægðarsögur og annað í þeim dúr.
Fararstjórn er í höndum Haraldar Njálssonar og svarar hann helstu spurningum í gegnum tölvupóst: haranja<hja>centrum.is og einnig í síma: 8981164
Lykilatriði er að menn og konur séu sjálfbjarga og hafi getu til að róa þá á sem ætlunin er að róa. Þessi ferð er ekki fyrir byrjendur en þeir eru aftur á móti boðnir velkomnir í rafting á gúmmíbátnum en þá verða þeir líka að láta vita af sér sem fyrst !
Til að komast á Hafgrímsstaði er vert að hafa eftirfarandi í huga:
Beint frá Reykjavík til Hafgrímsstaða: Aksturinn tekur um fjórar klukkustundir ef ekið er án þess að stoppa á 90 kílómetra hraða. Ekið er í norðurátt frá Reykjavík á þjóðvegi 1, í gegnum Mosfellsbæ og Borgarnes, framhjá Bifröst, Laugarbakka, Víðigerði og í gegnum Blönduós þar til komið er til Varmahlíðar. Beygt inn á veg nr. 752 rétt áður en komið er inn í byggðina í Varmahlíð. Á honum er ekið í um 10-15 mínútur þar til komið er að bækistöðvum Arctic Rafting á Hafgrímsstöðum. Hafgrímsstaðir eru 5 kílómetrum lengra frá Varmahlíð en Steinsstaðir.