Ekki var maður með miklar
væntingar fyrir róðurinn í morgun miðað við veðrið, en viti menn,
fimm manns mættu til leiks auk formannsins sem blessaði hópinn áður en ýtt var frá skor og stefnt út á úlfgráan sæinn í lofti allþrútnu. Rérum við með landi áleiðis að Blikastaðakró og þaðan inn að ósum Korpu þar sem tekið var land. Árvíti
hvasst úr suðvestri seiseijú, en við fundum skjólgóðan stað og drógum upp kleinubita og kaffidreitil.
Á heimleiðinni hafði vindinum vaxið ásmegin með
vaxandi öldu, þótt eigi kæmi það að sök á meðan flokkurinn hélt sig nálægt landi. En það er nú eins og það er, alltaf þurfa einhverjir að nota tækifærið og
æfa sig í pusinu. Fyrr en varði voru tveir félaganna komnir á lensinn
langt frá landi. Annar snéri við er hann hafði fengið nægju sína og þá tók hinn við og stefndi öllu einbeittari til hafs og skemmti sér dável. \"Látum nú geisa Gamminn,\" segir Skarphéðinn í Njálu um samnefndan knerri sinn í þrumusiglingu milli Noregs og Íslands, en hann hefði bara skammast sín við að sjá hin glæsilegu tilþrif kayakræðarans eins og á stóð í umrætt sinn. En skyndilega kom þar að bátnum hvolfdi og sægammur vor lenti á sundi. \"Upp skaltu á kjöl klífa, köld er sjávardrífa,\" flaug í gegnum huga hans - eða ekki. Allt um það, mannshöfuð og snjóhvítur kjölur skoppuðu milli öldutoppa þar til rokinu þóknaðist að feykja næsta manni á vettvang. Fékkst þarna fyrirtaksæfing í
félagabjörgun í allsæmilegum sjó, hvítskorinni báru og undiröldu í þokkabót. Sæfarendurnir brösuðu síðan í land, déskoti
kátir bara, og hittu félaga sína við Geldinganesið. Þar var kröpp vindalda sem fyrr og ekki var við annað komandi en æfa svolitla veltu, til að ljúka þessum
frábæra rokróðri á viðeigandi máta.
Þessir réru:
Gísli H.
Hörður
Páll R.
Þórólfur
Örlygur
<br><br>Post edited by: Orsi, at: 2007/03/25 22:27