Læt mig hafa það að skrá yfirstaðinn félagsróður þar sem enginn virðist ætla að taka upp pennan og hripa niður nokkur orð um þennan annars feiknaskemmtilega róður.
Giska á að ritandi menn séu heldur til baka eftir spaklega, listræna og fróðlega ritaðann pistil síðasta róðurs en þá hripaði Örlygur niður nokkur vel valin orð. Bít á Jaxlinn og prófa
.
9 bátar á sjó, til að byrja með en fækkuðu í 8 fljótlega, þennan síðasta fimmtudags- (kvöld)róður sumarsins.
Rúnar, Palli formaður, Gunni, Lárus, Þorbergur, Össur, og karl og kona á splundrandi nýjum Prijon trefjabátum ásamt einum nýliða, sem snéri í land fljótlega, enda kannski sjólag ekki beint hentugt til að fara sinn fyrsta túr.
Rúnar skipaður róðrarstjóri lagði til að róið yrði til norðausturs að Þerneyjarsundi en vegna sjólags yrði staðan metin jafnt og þétt. Þegar hér er komið sögu eru 9 bátar á sjó og nokkur vindstrekkingur af austri um 9m/s og 12m/s í hviðum. Þegar ræðarar fóru að nálgast Veltuvík var nýliðinn búinn að fá nóg og bað vinsamlegast um að sér yrði fylgt í land. Össur og Rúnar stormuðu í land með kappann en hinir biðu í Víkinni við æfingar. Þegar fylgdarsveinarnir höfðu snúið til baka var haldið inná Leirvogssundið með ölduna lemjandi á hægrið hlið. Fór þá svo að annar Prijon bátanna snéri rangsum. Hófust nú heilmiklar björgunaræfingar þar sem kunnátta stjörnuræðaranna kom að góðum notum og gekk björgun eins og í lygasögu við að koma ræðara á réttan kjöl. Tók nú róðrarstjóri þá ákvörðun að lensið yrði nýtt til hins ýtrasta og spíttað sem helst menn gátu að Lundey. Var þetta mikið fjör og þegar vel tókst til (að nýta ölduna) var rétt eins og fleytan væri vélknúinn svo mikil var ferðin
. Tekið var stutt kaffistopp í Lundey en þar er þó ekki mikið um góða lendingarstaði eins og menn vita. Þegar hér var komið sögu var eilítið farið að húma að kveldi og austan áttin nokkuð þétt. Má því segja að róðurinn til baka vestur fyrir Geldingarnesið og inn sundið heim að gámum hafi verið gefandi og skemmtilegur og fínn róður í reynslubanka. Verð að minnast á hvað gámarnir eru orðnir til mikils sóma, falla orðið skrambi vel að náttúru að degi og hverfa í myrkrið að kveldi.
Takk fyrir stórskemmtilegan róður