Ferðaminningar 2010

16 jan 2011 15:14 - 16 jan 2011 15:17 #1 by Gíslihf
Við í ferðanefnd s.l. árs erum nú að gera upp ferðir ársins 2010 og semja skýrslu og einnig að leggja mat á hvernig til tókst og öryggisreglur og erfiðleikaflokkun ferða. Þegar ég fer yfir efnið á Korkinum um ferðirnar og skoða myndir sé ég að þetta er mikið efni og vel heppnaðar ferðir. Það er notalegt á dimmum vetrardögum að skoða myndir úr sumarferðum, fegurðin og stemningin leyna sér ekki, einbeiting og gleði skín út úr mörgum andlitum. Þá óskar maður þess að þetta gæti verið meira fjölskyldusport, einnig fyrir þá með minni getu.

Ég var með í ferðunum á Hestvatn, frá Vogum til Keflavíkur, á slóðum Arnarstapa og loks við Hjörsey á Mýrum en gat ekki verið með í Breiðafjörðinn. Hestvatn vakti upp minningar úr móðu bernskunnar frá því ég var í sveit á nálægum bæ en uppkomin dóttir mín var með sem byrjandi á kayak. Róðurinn frá Vogum varð sögulegur, og hinar tvær ferðirnar geymast með birtu, fuglalífi og náttúrufegurð, sem kalla fram sælusvip þegar myndir og áhrif stíga upp í hugann.

Kayaksportið á sér margar hliðar og breiddin er mikil frá afreks- og jaðarsporti til útiveru með fjölskyldu í öruggu umhverfi. Sumir sjá aðeins keppnisgreinarnar, aðrir ljósmyndun, fuglaskoðun eða jafnvel veiðar og klúbbstarfið gefur færi á þjálfun í hópi góðra félaga og frábærum sumarferðum. Loks má einnig nefna ferðamannaþjónustu og viðskiptalegu hliðina við að bjóða báta, búnað, ferðir og leiðsögn.
Það verður fyrst og fremst að gæta öryggis og forðast slysin í öllu þessu starfi. Sá skuggi yrði dimmur og þungbær fyrir kayaksamfélag landsins ef einhver missti lífið vegna þátttöku í starfi okkar.

Ég þakka ykkur öllum samfylgdina í þjálfun og ferðum á liðnu ári og óska nýrri/endurnýjaðri ferðanefn góðs í verkefnum ársins 2011.

Bestu kveðjur,
Gísli H. Friðg.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum