Eftir róður í gær fór ég ásamt eiginkonu minni og sá Súðbyrðing. Það er fræðandi og skemmtileg heimildamynd og vakti upp góðar minningar frá klúbbferð okkar um Breiðafjörð sumarið 2008, en þá var tekið á móti okkur í bátasmiðjunni í Hvallátrum.
Íslensk tunga er auðug af orðum tengdum sjósókn, súðbyrðingur er eitt þeirra, en súð er skarsúð, orðið er einnig notað um þök, þar sem næsta borð fyrir ofan skarast yfir það neðra og eru þau saumuð saman með hnoðum. Segja má að för okkar séu sléttbyrðingar, um þrír riðfaðmar að lengd og flest þeirra geta farið um riðasjó og staðist riðöldu meðan vanur maður stýrir för.
Eigi hirði ég að spinna hinn fyrri þráð lengri eða ríða þar burt við einhvern minna ágætu félaga, enda hefur löngum þótt hygginna manna háttur að bæla flet eigi lengur en eina nótt í senn og riðnálar henta betur til að riða þennan vef okkar en hin breiðu spjót. Enginn frýr Örlygi vits né þekkingar á íslensku máli og veit hann vel að orð eins og riðvaxinn eða riðgála merkja annað en flestir af kynslóð hans mundu ætla.
Vil ég því frýja honum að setja saman riðhenda vísu um efnið.
Kveðja, GHF.