Félagsróðrar eru léttir róðrar í góður veðri og henta vel fyrir óvana!
Þessi staðalímynd reyndist röng í morgun. Við Þorbergur, Lárus og Gunnar fórum í um klst. róður í hvassviðri og ölduróti en róin vegalengd varð aðeins um 6-800 metrar! Vindmæling sýnir 18, 19 og mest 27 m/s á Geldinganesi kl. 11. Tveir áhorfendur voru á öryggisvakt í „félagsheimilinu“, þeir Gummi B. og Gísli K.
Allan búnað þarf að prófa við erfiðar aðstæður til að vita til hvers hann dugar. Það vildi svo til að ég var með margt í prófun í þetta sinn og skal hér gefin skýrsla:
Kokatat Expedition þurrgallinn var að koma út viðgerð, það voru sett ný latexstroff á báðar ermar og gert við gat á bringunni í leiðinni. Þrátt fyrir stöðuga ágjöf reyndust innri fötin vera þurr eftir róðurinn.
Ný Snap Dragon svunta, sem ég var með í fyrsta sinn og reyndist vel. Það var bara ég sem varaði mig ekki á því að láta lykkjuna standa út úr í látunum við að komast á flot. Það er best að vera aldrei of sjálfsöruggur og gæta alls öryggis!
Romany báturinn hans Magga, sem ég fékk lánaðan til að prófa. Hann hegðaði sér vel hvort sem vindur og alda voru á móti, á hlið eða farin var öldureið á undanhaldi. Hann reyndi ekki að velta mér, ekki heldur í verstu stormhviðum á hlið.Á þessum stutta „surf“-spotta fann ég hve miklu léttara var að stjórna stefnunni niður í öldudalinn en á mínum Explorer, sem er lengri.
Thule toppfestingar á bílnum. Á heimleiðinni yfir Gullinbrú kom ein af þessum sterku hviðum 25-30 m/s út voginn og lyfti bátnum upp að framan með öllum festingum og sneri honum þversum á þakinu undan vindi. Ég nam staðar rétt hjá ljósastaur, sem hefði sennilega fallið – því að ekki klikkar Romany-inn hanns Magga! Ekki er enn ljóst hvað brást þarna, en tjónið er nokkuð á þessum forláta búnaði, sem hélt bátnum á hliðinni þannig að blés beint inn í mannopið.
Ræðarinn sjálfur. „Lengi skal manninn reyna“.
Einn slíkur stuttróður gefur vissa þjálfun sem erfitt er að fá á annan hátt, en mikilvægara er að þekkja betur eigin getumörk, til þess að hafa vit á að fara aldrei út fyrir þau.
Kveðja,
GHF.