Haldið áfram með hringróðurinn

09 jún 2011 20:58 - 09 jún 2011 22:07 #1 by Sævar H.
Ég var að heyra í Magnúsi Sigurjónssyni,hringræðara nú um kl 20:00 í kvöld. Ég fékk eftirfarandi lýsingu :

Þeir róðararfélagar, hann og Rúnar Pálmason eru báðir komnir suður heiðar.
Í veðurkortunum næstu vikuna a.m.k verður hvöss N-NNA átt með kulda norðan úr Íshafinu sem mun leika um alla Vestfirðina með tilheyrandi haugasjó og þá einkum Hornstrandir.

Þegar þeir voru að róa út Skutulsfjörðinn í gærmorgun var á mörkum þess að þeir næðu fyrir Arnarnes –slíkt var rokið og aldan enda stóð strengurinn þvert út Jökulfirðina og yfir Djúpið.

Það sem ég taldi í leiðarlýsingunni í gær að þeir væru að velja sér hagstæða leið yfir á Snæfjallaströndina-var öðru nær. Þeir voru hreinlega aðframkomnir eftir róðurinn út Skutulsfjörðinn í þessu gerningaveðri og kulda.

Þeir þurftu tíma til að pústa aðeins og bæta á orkuforðann. Ekkert vit var í að ætla sér yfir Djúpið í þessum haugasjó með öldustefnuna um 45° framan við þvert.

Þeir taka því ákvörðun um að halda inn Djúpið og taka stefnuna á Folafót við Seyðisfjörð – þeir hafa lens þangað.

Eftir stutt stopp við Folafót setja þeir stefnuna á eyna Vigur og lenda þar eftir nokkurn róður á suðurenda eyjarinnar.

Þar er enn bætt á orkuforðann því þvera átti bæði Hestfjörð og Skötufjörð yfir í Ögur. Róðurinn gekk vel í haugasjó og sterkum vindsveipum frá Snæfjallaströndinni.

Og um kl 20:00 lenda þeir í Ögri og láta þar fyrirberast um nóttina-dúðaðir í dúnúlpur í svefnpokunum . Þvílíkur var kuldinn norðan úr Íshafinu og sviptivindarnir börðu tjöldin án miskunnar.

Um kl. 08:00 í morgun leggja þeir upp frá Ögri og hafa ákveðið að róa allt í Reykjanes. Nú er aldan 45 °aftan við þvert og miklir vindsviftingar. Það er því verulegt erfiði að halda bátnum á stefnunni.

Og þvílíkt var rekið að þeir urðu að beita 20-25° frá réttri kompásstefnu til að halda línulega í horfinu.

En ekki voru allir sáttir við að þeir væru að yfirgefa Djúpið um sinn. Fullvaxin hnísa stökk upp 2- 3 m útúr öldurótinu –svona eins og til að kveðja. Og ekki gat selurinn verið minni í sér einn þeirra hreinlega rakst á og undir bátinn hjá Magga.

Einhvernveginn svona sagði Maggi mér söguna af róðri þeirra Rúnars inn allt Ísafjarðardjúp í kulda,trekki og haugasjó.

Og nú verður hlé.

Fyrir mig hefur verið afar skemmtilegt að fylgjast með þeim félögum allt frá Patreksfirði-þökk sé Spottækinu ,veðurduflum,straumtöflum , veðurkortum ásamt nokkrum fróðleik úr gömlum skræðum fyrri tíma.

Og síðast en ekki síst þeim sjálfum.

Kveðja
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

09 jún 2011 20:15 #2 by Rúnar
Í ljósi afleitrar veðurspár fyrir Hornstrandir ákváðum við að slá ferðinni um þær á frest en róa þess í stað inn að Reykjanesi, hvar við vorum sóttir stundvíslega kl. 12 í dag.
Rétt er þó að byrja þar sem frásögn Örlygs lauk. Á meðan hann og Eymundur drifu sig út á flugvöll rerum við Magnús inn á Ísafjörð. Þar tók Halldór Sveinbjörnsson á móti okkur, íklæddur grænlenskum serk og á spánnýjum Greenlander Tahe-bát. Eins og von var hvolfdi Dóra en hann lét það ekki stöðva róðurinn heldur reri dágóðan spotta á hvolfi og sýndist okkur sem hann færi síst hægar þannig. Móttökurnar á Ísafirði voru feikilega góðar, eins og venja er til. Gaman var að sjá þær umbætur sem Sæfaramenn eru að gera á aðstöðu sinni, nei umbyltingu raunar. Aðstaðan verður algjörlega frábær! Enn skemmtilegra var þó að skoða nýju Tahe-bátana sem lofa góðu. Fallegir og rennilegir og vel smíðaðir bátar. Mér sýndist Magnús fá stjörnur í augunum þegar hann settist ofan í einn þeirra og tók hann til kostanna. Ég fékk að prófa en sýndi nú ekki miklar listir enda aðeins mætt á eina sundlaugaræfingu í allan vetur - sem gengur auðvitað ekki. Við gistum á gólfinu í Sæfarahúsinu og höfðum þá afþakkað mörg boð um heimagistingu - vildum frekar vera hjá okkar traustu klárum.
En þá að ferðinni. Fyrsti leggurinn var inn í Ögur, með viðkomu í Folafæti og Vigur. Í Ögri er Halldór Halldórsson, fyrrv. bæjarstjóri búinn að stofna ferðaþjónustufyrirtæki ásamt systkinum sínum o.fl. og mun m.a. bjóða upp á kayaksiglingar. Hann var svo elskulegur að sækja bátana okkar niður í fjöru, keyra þá upp að félagsheimilinu í Ögri þar sem við fengum svo að gista um nóttina. Sem var ágætt því norðanvindurinn var doldið kaldur. Við ræstum snemma, komnir á sjó um kl. 8:30 og brenndum inn í Reykjanes með einu stuttu stoppi. Sjólagið á leiðinni var nokkuð skemmtilegt bara, hliðarlens og lens. Magnús kann kannski að lýsa því betur.
Ferðin öll var frábær enda ferðafélagarnir traustir.
Mér finnst rétt að nota þetta tækifæri og greina frá því að ég hef ákveðið að gerast styrktaraðili Magnúsar með því að leggja honum til heimatilbúna orkubita gegn því að ég fái nafn mitt og mynd utan á bátinn. Aðeins er eftir að ganga frá nokkrum smáatriðum áður en skrifað verður undir samninga ...
Takk Sævar fyrir ferðasöguskrifin. Frásögnin af verbúðinni á Fjallaskaga var afar upplýsandi - tóttirnar þar eru að sönnu ótrúlega umfangsmiklar.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

09 jún 2011 09:37 - 09 jún 2011 12:10 #3 by Sævar H.
Þeir róðrarfélagar Maggi S. og Rúnar P. létu fyrirberast að Ögri við Djúp í nótt.

Ófært var yfir Djúpið vegna veðurs.

Kl.8:00 í morgum lögðu þeir upp frá Ögri-en stefnan er ekki yfir Djúpið-heldur inn og í átt að Reykjanesi.

Veðurútlit næstu vikuna á Hornströndum er slæmt N og NA hvassviðri og þá með tilheyrandi sjólagi.

Nú er N 3-15 m/sek við Æðey Djúpið. Það er því lens hjá þeim innað Reykjanesi.

Þeir félagar lentu í Reykjanesi á slaginu 12:00 og passlega í hádegismatinn...

Nú bíðum við frekari fregna frá þeim sjálfum :unsure:

Frá Reykjanesi við Djúp
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

08 jún 2011 16:34 - 09 jún 2011 08:24 #4 by Sævar H.
Þeir róðrarfélagar Magnús Sigurjónsson,hringfari og Rúnar Pálmason héldu upp frá Ísafirði um kl 14:00 í dag 8.6.

Hinir tveir þeir Eymi og Örlygur luku sínum þætti í Bolungavík í gær eftir meðróður allt frá Patreksfirði.

Þeir Maggi og Rúnar eru komnir út Skutulsfjörðinn og fyrir Arnarnes. Þar stoppuðu þeir í um hálftíma og greinilega að meta horfurnar á leiði yfir Djúpið.

Norðan 6-9 m/sek er núna yfir Djúpið og sennilega hvítt í föll og kröpp alda. Þeir hafa ákveðið að róa inn Djúpið og stefna nú á Folafót austan Seyðisfjarðar.

Hugsanlega leggja þeir í að þvera Djúpið yfir á Snæfjallaströnd-norður af Vigur og stytta með því leiðina yfir og betra leiði.

Um kl. 19:00 hafa þeir félagar tekið land á suðurenda Vigur. Þeir hafa róið um 20 km frá því þeir lögðu upp frá Ísafirði. Veður er þeim ekki hagstætt sem stendur.

Það er N 6-10 m/sek í Djúpinu sunnanverðu en í Æðey sem liggur nærri Snæfjallaströnd er NV 7-12 og inn Djúpið. :(
Nú er það spurningin -róa þeir í skjóli norður með Vigur og láta síðan vaða á að fara yfir á Snæfjallaströnd ? :unsure:

Í stað þess að róa yfir Djúpið réru þeir inn Djúpið og eru núna í Ögri og engin hreyfing á.

Nú bíðum við eftir nýjum degi ;)

Horft út Djúpið

Snæfjallaströnd t.h með Vébjarnarnúp fremstan. Þar inn af er Hesteyrarfjörður og Jökulfirðirnir.

Fjallaskaginn í framhaldinu er Sléttunes , Grænahlíð og Ryturinn fremst-útvörðurinn milli Ísafjarðardjúps og Aðalvíkur. Allt þetta fara þeir félagar fyrir á leið sinni um Hornstrandir. :)
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

08 jún 2011 10:24 - 08 jún 2011 10:35 #5 by Sævar H.
Gísli H.F. hringfari spyr um hvar er Barði og hvar er Purka ?

Í mjög ítarlegri árbók FÍ ,1999 eftir sagnfræðinginn Kjartan Ólafsson og Vestfirðing er að finna þessa lýsingu:

"Fjallið Barði rís bratt úr sjó með tröllslegum hamraveggjum sem ná úr fjörunni á efstu brún"

Barði tilheyrir Búðarhorni sem er útvörður milli Dýrafjarðar og Önundafjarðar. Þegar fyrir Barða er komið og fer að sjá inní Önundarfjörð er stór og djúp skál sem gengur inn í Barðann-hún heitir Purka.

Barði var stundum nefndur Skerja -Barði vegna mikilla skerja fram af nesoddanum. Þau eru nefnd Purkusker.

Nafnið Purka er dregið af nafninu svín. Fiskimenn forðust að nefna orðið svín á sjó þar sem þeir töldu að "svínhveli" gæti þá gert þeim lífið leitt. Þá töluðu þeir um purku...

Klárlega er mikil röst fyrir Purkuskerin. Um það getur Örlygur borið vitni... :)

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

08 jún 2011 09:05 #6 by Gíslihf
Takk fyrir pistilinn Örlygur, en við lestur fregna í knöppum fornsagnastíll fýsir oss fleira að frétta.
Hvar eru Barði og Purka og seint trúi ég að Kokatatur sníði okkur leka stakka? Mun það hafa farið sviti og fúkkaeimur af fúnum skrifstofublókum?
Fagna ég og fregnum af hörðum straumum er mér trúðu fáir, síst þeir er lesta gögn frá Siglingastofnun og Sjómælingum er ná aðeins til sigilingaleiða og djúpmiða.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

07 jún 2011 21:33 #7 by Orsi
Þá skal rita, þótt ekki jafnist á við frásagnir Sævars sagnameistara.

Við Eymi skildum við Rúnar og Magga á Bolungarvík á slaginu kl. 17 í dag og þurftum að flýta okkur í flug, en þeir héldu áfram til Ísafjarðar og fá að líkindum afar hlýjar móttökur þar.

Þetta voru frábærir 4 róðrardagar, margt stendur uppúr, ekki síst kaflinn um Barða og Purku að ógleymdri Kóparöstinni. Þar var hopperí af guðs náð og allir skemmtu sér hið besta. Bátarnir skvettu upp rassinum eins og trippi í haga og við vorum allir meira og minna blautir þegar við komum í Selárdalinn. Þar um nóttina barði vindurinn tjöldin af einstöku listfengi en þau voru nú merkilega heil þegar við vöknuðum daginn eftir.

Við fengum bæði strauma með okkur og og á móti, og greinilegt að þeir eru nokkuð sterkir á þessum svæðum. Skemmtilegt var að hafa hámarksstraum í bakið á leiðinni meðfram Skagafjalli og reyndar var ekki síðra að kljást við mótstraum við Kópanestið eins og að framan gat.

Og loks renndum við inn á Bolungarvík síðdegis í dag. Þangað kom Guðni Páll og sótti okkur Eyma, með höfðinglegu boði um að taka bátana seinna um kvöldið og koma þeim í örugga geymslu ásamt því að taka verin okkar, þrífa þau og þurrka. Takk fyrir það félagar. Við hittum síðan Dóra og Pétur Hill, sáum nýju bátana og heilluðumst ákaflega. Minnstu munaði að við rifum upp veskin á staðnum.

Hvað um það, þessi róðrarhópur var frábær og vann vel saman, hélt hópinn undantekningalaust og við skiptumst á að skemmta hver öðrum. Það eina sem vantaði var brennikubbur. Prímusinn hans Rúnars bætti það kannski upp.
Ö.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

07 jún 2011 11:35 - 08 jún 2011 09:44 #8 by Sævar H.
Núna þann 7.6 lögðu þeir róðrarfélagar upp frá Ingjaldssandi í Önundarfirði kl 9,30-en þar létu þeir fyrirberast í nótt.

Þeir tóku stefnuna fyrir Sauðanesvita á Súgandafirði og þveruðu því Önundarfjörðinn-utarlega.

Þegar þetta er sett um kl.11:30 eru þeir einnig búnir að þvera Súgandafjörð og eru staddir skammt utan við Gölt ,útvörð Súgandafjarðar í norðri.

Það er því hörku gangur á róðrinum hjá þeim. Það sýnist ljóst að Ísafjörður í kvöld er markmiðið.

Veður og sjólag er þeim mjög hagstætt. Það er SSV 2-6 m/sek og ölduhæð 0,7 m. Það er því lens. Og síðan snýst í V átt hæga inn Djúpið og áfram lens. Heiðskýrt og sól á lofti. Leiðin frá Ingjaldssandi og þvert af Gölt er um 11 km. Meðalhraði hjá þeim hefur verið um 5 km/klst sem bendir til að þeir hafi suðurfallið á móti sér. :unsure:

Kl 14: 45 Liggur róðrarleið þeirra frá Skálavík fyrir Deild og inn Ísafjarðardjúp-með Stigahlíð.. :)

Kl. 17:00 renndu þeir félagar bátum sínum í fjöru innan við hafnarmynnið á Bolungavík eftir harðjaxlaróður frá Ingjaldssandi í Önundarfirði-glæsilega gert :P

Og enn halda þeir kappar róðrinum áfram Kl 18:00 lögðu þeir upp frá Bolungavík og stefna inn Djúpið til Ísafjarðar. Þangað er um 15 km róður og verða þeir á Ísafirði um kl 20:00 í kvöld og ljúka þessum merka áfanga sínum sem hófst á laugardaginn sl. :silly:

Við fylgjumst spennt með framhaldinu ;)

Fjallaskagi í Dýrafirði


Fjallaskagi er utarlega á norðanverðum Dýrafirði og skammt sunnan við Barðann.

Leið þeirra félaga lá þar um í gærkvöldi.

Á Fjallaskaga var um aldir fjölsóttasta verstöð í Vestur –Ísafjarðarsýslu og eru flestar búðatóttirnar innantil á sjálfum Skaganum,nesinu græna sem gengur út í fjörðinn. Dæmi voru um að 27 sexæringar réru á hverju vori frá Skaga. Þannig að um tvö hundruð manns hafa dvalið þarna við fiskveiðar.

Á Skaga þótti best að róa í „Brestinn“ þegar útfallið var að byrja. Þannig nýttu menn norðurfallið til að létta sér róðurinn á fiskimiðin undan Barða,stóðu svo við færin fram yfir liggjandann en létu suðurfallið bera bátinn inn með fjarðarströndinni á heimleið.

Allar þessar verbúðir sem menn höfðust við í yfir vertíðina voru moldagreni,hriplek í rigningu og stundum ætlaði kuldinn menn lifandi að drepa. Í einni verbúðinni á Skaga snéri Sighvatur Borgfirðingur þó heilli doktorsritgerð úr dönsku yfir á íslenzku sem mátti heita stórmerkilegt.

Tilv. í Árbók FÍ 1999 ;)

Róðrarferillinn frá Patreksfirði til Ísafjarðar
picasaweb.google.com/1092184226548600605...#5615575364711449890
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

06 jún 2011 12:56 - 07 jún 2011 21:48 #9 by Sævar H.
Nú,þegar þetta er sett inn eru þeir félagar að komast að norðurströnd Arnafjarðar -um 2 km norðan við Lokinhamra.

Ekki var ferðafært kl 6 í morgun eins og þeir áætluðu. Það er ekki fyrr en kl 10.30 að að þeir ýta úr vör frá Króki í Selárdal.

Þeir settu stefnuna á Lokinhamra en þegar nær dró ströndinni sveigðu þeir stefnuna norður með ströndinni.

Það er greinilega enþá kröpp alda á móti og 6-10 m/sek. Róðrarhraði hjá þeim köppum yfir Arnarfjörðinn var um 4,5 km/klst.
Nú er vindur og sjór að ganga niður og lítur vel út hjá þeim í dag . Það er heiðskýrt og sól.
Kl .12:50 tóku þeir land á Eyjólfsnesi undir Tóarhyrnu Þar sem fólkið á myndinni er á göngu.

Meira síðar. Við fylgjumst með :)
Kl.13:20 leggja þeir upp frá Eyjólfsnesi og um Kl 15:40 eru þeir komnir að Kögri sem er skammt norðan við Svalvoga og því næst að þvera Dýrafjörðinn. Þeir hafa nú róið > 18 km frá því í morgun. Róðurinn frá Eyjólfsnesi hefur verið þungur - meðalhraði < 3,5 km/klst. Þei hafa haft vindin og ölduna á móti og kannski straum.
Kl 17:05 Lentu þeir félagar skammt norðan við Gerðhamra eftir að hafa þverað Dýrafjörðinn. Dagsróðurinn hjá þeim er kominn í 26 km. Á þverun Dýrafjarðar héldu þeir um >6 km/klst meðalhraða.

En við höldum áfram að fylgjast með þeim og bíðum spennt eftir framhaldinu ;)

Núna kl 21:00 eru þeir félagar að komast þvert af Barðanum útverði Önundarfjarðar í suðri. Þeir hafa nú róið tæpa 40 km það sem af er þessum degi. Og í þeirr blíðu sem nú er hjá þeim er ekki ólíklegt að þeir þveri Önundarfjörð-en það er um 11 km róður frá núverandi stað-og þvert af Sauðanesvita. Þá er orðið stutt á tjaldstæðið á Suðureyri á Súgandafirði... :unsure:

Og við fylgjum spennt með framhaldinu. :P
Kl 23:00þann 6.6 tóku þeir félagar land á Ingjaldssandi við Önundarfjörð og láta þar fyrirberast í nótt.Að baki er um 46 km róður frá Krók í Selárdal.

Lokinhamrar og baráttan um fiskinn

Á ofanverðri 18 öld var gefið út af Lokinhamrabændum eftirfarandi friðlýsingarplagg:

„ Vér undirskrifaðir landsdrottnar og leiguliðar,lögfestum og friðlýsum hér með í dag öllum veiðistaða-nefndrar jarðar-lóðalagningamiðum til sjávar eftir gamalla manna svo heitnum örnefnum.

Bænhúsamið ,Hlöðumið,Duggholumið,Tóftamið,Skemmuholumið,
Tangahöggmið og Naustamið.
(miðin voru sérstaklega tilgreind frekar til miðunarstaðhátta. SH.)

Þessum framanskrifuðum lóðalagningarmiðum lögfestum vér fyrir oss sjálfa,vora eigin erfingja og alla eftirkomendur,aldna og óborna,um aldur og ævi, sem öðrum frá óminnilegum óðals og óafmáanlegum réttarítökum nefndrar jarðar vorrar, Lokinhömrum“
Tilv. Íslenskir sjávarhættir

Þetta var um 200 árum fyrir“ kvótann“ og ennþá stendur baráttan

Lokinhamrar í Arnarfirði Horft yfir Arnarfjörð til Ketildala

Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

05 jún 2011 18:45 #10 by Þóra
Sæll Sævar
Takk kærlega fyrir lýsinguna á þessari spennandi för hjá strákunum, fylgist spennt með framvindunni og fróðleiknum hjá þér.
kveðja Þóra
Bið að sjálfsögðu að heilsa ef þú heyrir í þeim :)

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

05 jún 2011 18:41 #11 by Gíslihf
Þetta eru mínir menn! Ef ég hef lent í svipuðum aðstæðum þá var það við Rauðanúp á NV horni Melrakkasléttu.
Mér þykir fínt að "ferðast" með því að lesa færslur Sævars og skoða kortin á vedur.is og sigling.is en þó fyllist ég æ meira eirðarleysi að hanga svona í landi.
Þegar ég fór á togara 16 ára gamall lagðist það illa í móður mína, óttaðist að ég væri að taka rangan kúrs í lífinu, að komast í slæman félagsskap og líklega einnig í óreglu. Það fór þó allt vel og enn er ég að hugsa um sjóinn og mjög óvenjulegan félagsskap - en mjög góðan þó.
Nú er um að gera að sæta lagi og þá er þetta ekki nein skrifstofuvinna frá kl. 9-5 e.h.!

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

05 jún 2011 17:09 - 05 jún 2011 17:16 #12 by Sævar H.
Takk fyrir þetta GummiB. Jú auðvitað er Rúnar Pálmason með í för. Ég hafði misskilið málið . Eymi og Örlygur fara með til Ísafjarðar en Rúnar heldur áfram með Magga S.allt til Hólmavíkur.
Ég hafði mislesið að Rúnar bættist við á Hólmavík. Það var ekki einleikið hvað þeir komust "þrír" svona glæsilega fyrir Kóparöstina í þessu sjólagi og veðri.Það þurfti fjóra til.

kveðja : ;)

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

05 jún 2011 16:57 #13 by GUMMIB
Sæll Sævar.

Gaman að fá svona skýrslur reglulega, takk fyrir það. En er ekki líka Rúnar Pálmason með í för?

Kv.
Guðmundur.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

05 jún 2011 14:53 - 05 jún 2011 15:17 #14 by Sævar H.
Núna kl 14.30 hringdi Örlygur í mig frá Selárdal í Arnarfirði.
Róðurinn í morgun allt að Kópavík var svipaður og ég lýsti hér að framan.
Þegar þeir koma að innsýn í Arnarfjörðinn-tekur á móti þeim mikill hrærigrautur af haföldu að SV og NNA 12-15 m/sek og vindöldu sem stendur þvert yfir Arnarfjörðinn og í fangið á þeim.

Við þetta bætist síðan Kóparöstin og gerir hafið að suðupotti þarna. Þeir telja þetta eina mestu róðraraun sem þeir hafa upplifað og er ekki af smáu að taka úr þeirra reynslubanka.

Þeir taka síðan land eins og kemur fram hér að framan -við Verdali innan Þúfutanga í mynni Arnarfjarðar.

Þar kasta þeir mestu mæðinni og ákveða að færa sig innar í Arnarfjörðinn. Í þessum haugasjó og NNA roki á hlið róa þeir að Selárdal og taka þar land.

Skömmu síðar er allt orðið ófært á Arnarfirði og raunar á Vestfjörðum öllum. Fiskibátar eru óðum að forða sér til lands.

En þeir félagar eru sprækir vel eftir volkið og í tilefni Sjómannadagsins ætla að halda sér hátíð í Selárdal með landkönnun m.a skoða Uppsali hans Gísla og listaaverkin hans Samúels-en þar munu þeir láta fyrirberast í nótt.

Þeir ætla síðan að taka daginn snemma í fyrramálið svona um kl 6 og þvera þá Arnarfjörðinn og lengra norðureftir. Þeir biðja að heilsa.

Spáð í veðurútlitið í Selárdal :unsure:
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

05 jún 2011 10:58 - 06 jún 2011 13:24 #15 by Sævar H.
Þeir félagar höfðu næturdvöl í Feigðarvík undan Sellátradal utarlega á norðurhlíð Tálknafjarðar.

Og kl. 9 í morgun á Sjómannadaginn leggja þeir upp norður með ströndinni og í átt að Kóp sem er útvörður Arnarfjarðar í suðri.
Veður er NA átt og þeir því í nokkru skjóli að Arnarfirði. En ölduduflið utan Blakkness sýnir 2,6 m ölduhæð en fer minnkandi.

Þeir eru því í góðu lensi þessa stundina-enda rokgengur hjá þeim > 7,5 km/klst meðalhraði.

Þeir verða komnir útaf Kóp um kl 11. Þá fer að þyngjast hjá þeim- vindur kominn á móti en aldan á eftir um sinn.

Nú er spennandi að sjá hvað þeir gera þegar fyrir Kóp er komið ?

Veður fer að ganga niður í kvöld og nótt-þannig að næturróður er inni í myndinni.

Við fylgjumst spennt með þeim félögum

Kópavík undan Kóp

Mynd fengin að láni af netinu

" Kópavík
mun hafa verið útgerðarstaður frá
því um 1500 til 1870, og af og
til síðan þar til nokkru eftir
síðustu aldamót. En sennilega
hefir útgerð hafist þama miklu
fyrr. — Á dögum séra Páls
Björnssonar í Selárdal, sem var
prestur þar frá 1645—1706,
fórust af ofhleðslu í Kóparöstinni
tveir áttæringar, er prestur
átti, er voru að koma alfermdir
af afla úr Kópavík."

Þannig að það er fyrir Kóparöst að fara hjá þeim félögum

Kl 13.00
Þeir félagar voru komir fyrir Kóp og inní mynni Arnarfjarðar um kl 12 . Mjög hægði á ferð þeirra fyrir Kópinn enda með vindinn í fangið og yfir Kóparöstina að fara.
Þeir lentu við Þúfutanga í Verdölum og lögðu síðan af stað aftur um kl 12.35 og ætla inn með suðurströnd Arnarfjarðar.
Nú er hafaldan sem er um 2,2 m við Blakknes ekki lengur að trufla þá en NNA 10-15 m/ sek er samt þvert yfir Arnarfjörðinn

En við fylgjumst spennt með-áfram
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum