Þetta er mjög spennandi róðrarferð sem Páll R. er búinn að skipuleggja. Áætlað er að leggja upp frá Hofstaðavogi sem er á Þórsnesi skammt sunnan við Stykkishólm og því tengd Breiðafjarðar eyjasvæðinu.
Ég réri síðast á þessum slóðum þegar Gísli H.F, hringróðrarkappi lagði upp frá Akureyjum til Stykkishólms-ég réri frá Hólminum mótst við kappann.
Fyrir vesturenda Hofstaðavogs er Purkey. Eyjan hét áður Svíney en sjómönnum var illa við allt sem nefnt var eftir svínum vegna ótta við illhveli sem tengist nafninu. Nafninu var því breytt í Purkey , þetta nafn er viða að finna um Breiðafjörð og Vestfirðina og ástæðan er sú sama.
Og stefna fararstjóra er sett á Bjarnarhöfn (Kumbaravog)í þessum fyrsta áfanga ferðar.
Bjarnarhöfn:
Þoleifur Þorleifsson. (1801-1877). Hann var einn allra merkasti maður á Snæfellsnesi á nítjándu öldinni .
Hann bjó á Bjarnarhöfn.
Þorleifur var smáskammtalæknir og varð héraðslæknir. Hann var gæddur miklum hæfileikum; hann þótti mjög heppinnn læknir, aflasæll formaður, mikil skytta og dugandi bóndi. En það allra merkilegasta í fari hans var þó fjarsýnisgáfan.
Margar sögur fara af því hvernig hann gat nýtt sér þennan hæfileika sinn til lækninga, sagt var að hann gæti séð það á fólki hverjir áttu von og hverjir ekki.
Nú er Bjarnarhöfn þekkt fyrir afbragðagóðan hákarl verkaðan af Hildibrandi ,bónda.
Kumbaravogur
þar sem Páll ætlar að láta okkur fyrirberast fystu nóttina er m.a merkilegur sem gamall verslunarstaður.
Enskir kaupmenn komu frá Cumberland til að versla í Kumbaravogi í Bjarnarhöfn snemma á öldum. Þangað komu líka Hansakaupmenn og hollenskir og danskir kaupmenn.
Og næsta dag er ætlunin að róa inn í Kolgrafafjörð sem er vestan við Bjarnarhafnarfjall.
En það á að hafa viðkomu í Akureyjum sem eru skammt norðan við Bjarnarhöfn.
Þar var verstaða fyrir 1700 og síðan heimræði. Lúðvík Kristjánsson segir í Sjávarháttum að þaðan sé elsti bátur með breiðfirsku lagi sem varðveist hefur, jafnvel annað elsta skip í landinu og heitir það BLIKI.
Skeley er sunnan við Bæjarvog í Akureyjum. Hún er mun minni en aðaleyjan en þar voru lítilsháttar slægjur og um 1700 eru í Skeley tvær hjáleigur eða búðir og höfðu áður verið fleiri. Í annarri búðinni bjó árið 1702 enginn annar en Árni sá Ólafsson sem áður var í Arnarbotni í Helgafellssveit og kunnastur er af þjóðsögunni "Skyldu bátar mínir róa í dag".
Og frá Akureyjum ætlar Páll að halda inn Kolgrafafjörðinn. Fjörðurinn er kenndur við landnámsbæinn Kolgrafir, sem eru sunnan við brúna yfir fjörðinn -að austan.
Hraunsfjörður gengur innúr Kolgrafafirði í austur. Norðanmegin við hann er Breserkjaeyraroddi í framhaldi Bjarnarhafnarfjalls.
Á eyraroddanum hélt Þorleifur læknir á Bjarnarhöfn ,spítala. Síðustu sjúkningar þar voru tveir gamlir karlar.
Þeir höfðu sér það til dundurs að róa til fiskjar á góðviðrisdögum. Góð spítalavist það.
Og nú er ég að spá í að taka þátt í kayakferðinni hans Palla R. a.m.k að Kolgröfum...
Eins og er er veðurútlit heldur í lakaralagi en það getur allt breyst til batnaðar fyrir helgi - vonum það
Þetta er svona smá fróðleikur um svæðið væntanlegum ræðurum til skemmtunnar.
Akureyjar og Bjarnarhafnarfjall í baksýn
(myndin er fengin að láni af netinu)