Hofstaðavogur-Grundarfjörður, 23.-25. júlí

28 júl 2011 10:26 #1 by StefanSnorri
Ferðin var í alla staði stórgóð eins og hér var lýst, ekki síst m.t.t. söguskoðunar. Ég þakka ferðafélögunum samfylgdina og frábæran félagsskap.

Kv. Stefán Snorri

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

27 júl 2011 23:46 #2 by Gíslihf
Þetta var notaleg ferð með góðum félögum og veðrið var breytilegt en alls ekki eins afleitt og sumir óttuðust. Þrátt fyrir það náði undirrtaður að verða það oft og lengi blautur að við ferðalok var sundskýla eina flíkin sem var almennilega þurr.

Það mátti taka undir með Jónasi Hallgrímssyni sem sagði:
Veðrið er hvorki vont né gott,
varla kalt og ekki heitt.
Það er hvorki þurrt né vott,
það er svo sem ekki neitt.

Þessi ferð var að sumu leiti ferðalag aftur til þjóðhátta fyrri tíma í Bjarnarhöfn og Akureyjum og allt aftur til landnámsaldar, með upprifjun á söguþræði Eirbyggju og rölti um tóttir og bæjarhóla. Kristinn á Kverná hafði skoðanir á persónum Eirbyggju eins og þær væru enn í hans sveit.

Hér er tengill á mínar myndir:
picasaweb.google.com/gislihf/M201107

Kv. GHF.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

27 júl 2011 18:28 #3 by Páll R
Hér kemur ferðasagan og tilvísun á myndir sem ég tók.

Hofstaðavogur-Grundarfjörður, 23.-25. júlí

23. júli: Það leit ekki of vel út með veðurlag síðustu dagana fyrir brottför þessarar ferðar. Sex höfðu tilkynnt þátttöku með fyrirvara, en þrír létu slag standa og mættu við Hofstaðavoginn að morgni laugardagsins 23. júlí, þeir Örlygur, Stefán Snorri og Gísli H.F., ásamt undirrituðum.
Veður var hið ágætasta til undirbúnings brottfarar, NA-gola og léttskýjað. Lögðum af stað út voginn eftir hádegið skömmu eftir háflóð og rérum sem leið lá að Purkey. Þar tókum við land til þess að glöggva okkur á landslaginu áður en lengra var haldið. Létum nægja að skoða Grynnri- og Dýpriey frá sjó en í Hafnareyjum tókum við land og nærðum okkur í skjólsælli vík. Enn lék veðrið við okkur og því afráðið að halda út í Hrútey til þess að kanna þar gistiaðstæður Gísla frá hringróðrinum fræga. Vart var gengt um hluta eyjarinnar vegna lundahola, en fuglinn lét lítið á sér bera. Á síðasta legg dagsins frá Hrútey að Kumbaravogi við Bjarnarhöfn var strekkingur á móti, sem olli okkur þó engum vandræðum. Lentum þar á fjöru milli Landeyjar og lands, og tók þá við bátaburður nkkurn spöl. Slógum upp tjöldum á sléttum og grónum flötum niður við sjóinn. Þar var nokkurt úrval bátakerra og gamall trébátur lá þar á hvolfi og mátti muna fífil sinn fegri. Eftir kvöldmatinn gerðum við okkur ferð að bænum í Bjarnarhöfn til þess að skoða safnið sem þar er og ræða við Hildibrand bónda. Tók hann okkur ljúfmannlega og leiddi okkur um salarkynnin og sagði frá munum þar. Auðvitað fengum við að smakka hákarl, en Hildibrandur er þekktur fyrir verkun hans. Fyrir svefninn gengum við út Kumbaravoginn og áleiðis út á Kaupstaðartanga. Á þessum slóðum eru m.a. friðlýstar minjar frá landnámsöld og húsgrunnur frá því Thor Jensen var þarna með umsvif.

24. júlí: Nokkuð rigndi um nóttina, en stytti upp er leið á morguninn. Vorum morgunsvæfir og lögðum af stað úr Bjarnarhöfn áleiðis til Akureyja eftir hádegið í hægum sunnan vindi. Hringuðum við stærstu eyjuna. Þar er mjög gróið og nokkrar víkur, misskjólsælar eftir áttum, sem hafa gert lendingu báta auðveldari í slæmum veðrum. Í Akureyjum tók á móti okkur Jóhann Gíslason ásamt fjölskyldu, sem stundar þarna grásleppuveiðar og dúntekju yfir sumartímann. Þar hefur hann gert upp gömul steinhús með mikilli prýði. Leiddi hann okkur um húsakynnin og sagði frá ýmsum staðháttum á eyjunni. Ekki má gleyma kaffisopanum sem okkur var boðið fyri brottför. Frá Akureyjum heldum við út Letisund og svo áfram inn með hlíðinni vestan megin Bjarnarhafnarfjallsins. Tókum land við eyðibýlið Ámýrar, gamalli hjáleigu frá Bjarnarhöfn. Þaðan er gott útsýni inn Kolgrafafjörðinn og til vesturs að Eyrarfjalli og Klakki. Áfram var haldið inn með hlíðinni og ákveðið að taka krók inn fyrir Seljaodda og áfram undir ytri brúna í Hraunsfirði. Þar áðum við með Gjafamúla sem bakhjarl og Bjarnarhafnarfjall í móti. Ekki dónalegt það. Mikið kríuger var utan við brúna í æti í iðustreymi sem þar myndast vegna sjávarfalla. Nú var síðasti leggur dagsins eftir, undir brúna sem þverar Kolgrafafjörðinn og inn í botn. Nokkuð tíðindalítill róður og þoka í fjöllum innst. Gott tjaldstæði fannst upp á bakkanum undir Lambahnúk við Hrafnkelsstaði, sem nú er í eyði. Ekki var að sökum að spyrja að nokkuð létti til um það leyti sem við renndum upp í fjöruna. Þarna er tilkomumikið umhverfi, Gunnungsfell og Hrafná sem fellur í fögrum fossi niður í Hrafnkelsstaðabotn, og svo Eyrarbotninn og fjallasalurinn ofan Hlöðuvogsins. Þetta er með glæsilegri náttstöðum. Veðrið var eins og best er á kosið, lygnt og hlýtt en skýjað. Eftir kvöldverð gengum við inn Hrafnkelsstaðabotninn til gilja- og fossaskoðunar. Góður dagur var að kveldi kominn og lögðumst til hvílu skömmu fyrir miðnættið.

25. júlí: Vöknuðum í vestan andvara og þurru veðri. Eftir snæðing tókum við saman föggur okkar og nú tók við lengsta róðrarleiðin, um 25 km, yfir að Setbergi í Grundarfirði. Heldum frá landi um kl. 11 f.h. og rérum út fjörðinn sem leið liggur að brúnni. Háflóð átti samkvæmt okkar kokkabókum að vera um kl. 14:30, og mátti því búast við einhverjum mótstraumi og iðum við brúna, en við treystum á að þar sem var smástreymt þessa daga yrði það okkur ekki til trafala. Ekki reyndist þetta mikil hindrun. Nú skildi stefnt að Öndverðanesi undir Eyrarhyrnu. Þessi staður kemur nokkuð við í Eyrbyggju að sögn Snorra, þ.e.a.s. Stefáns Snorra, sem nýlega las hana. Þarna eru bæjarrústir á talsverðu svæði og greinilegt að þetta svæði hefur þótt gott til búsetu á fyrri öldum. Sama má segja um Eyrarodda, oddann sem gengur VSV frá Eyrarfjalli. Þar er merkilega grösugt og þar hafa verið lífhafnir beggja vegna oddans á árum áður. Við áðum í Suðurbót Eyraroddans í blíðunni þennan dag. Þaðan var víðsýnt til allra átta og mjög notalegt dvöl. Næst á dagskrá var að halda fyrir oddann og vestur í Grundarfjörð. Við létum þó eftir okkur að bregða okkur skottúr til Írlands, lítið sker rétt norðan við oddann. Þar er nokkur skarfabyggð. Ekki eru margir bæir eftir í byggð vestan undir Eyrarfjalli, en tveir eða þrír una sér þar enn. Rérum nú gegnum þangbreiður og sker á flóðinu og að Snoppu, litlum skerjatanga sem gengur út frá landi. Þar þótti upplagt að teygja úr sér stutta stund. Spölurinn að Setbergi var nú orðinn stuttur. Brattir líparítsklettar eru neðan við þetta fyrrum kirkjuból og prestssetur, Nú er þar auk búskapar rekinn ferðaþjónusta. Í hægviðri er á fjöru auðvelt að lenda hvar sem er undir klettunum, en erfiðara getur reynst að komast upp á bakkann með allt sitt hafurtask. Hægt er að koma bíl að bakkanum nokkru innn við bæjarstæðið, en þó verður að klöngrast með bátana upp lítinn, en nokkuð brattan stíg. Þetta tókst okkur með ágætum.
Nú var megin tilgangi ferðarinnar lokið, en hægt að lengja um einn dag með róðri um Grundarfjörðinn ef vilji stóð til. Eftir stutt skoðanaskipti á bakkanum við Setberg voru allir sammála að láta gott heita að sinni, en enda daginn á heimsókn til Kristins á Kverná. Gísli hafði í ferðinni mært mjög vöfflubakstur Kristins og vildi endilega leyfa okkar að njóta. Engar fengum við vöfflurnar, en Kristinn sveik ekki. Bauð hann upp á heimabakað brauð og kaffi, og ekki lét hann sig muna um að bæta við eftirrétti. Allt þetta bar hann fram úti í garði, dúkaði þar borð og kom með afar fallegt postulínsbollastell með bláu laufmynstri. Sátum við þarna í góðu yfirlæti með Kristni um hríð. Hélt nú hver til síns heima eftir að mínu mati öllu leyti mjög vel heppnaða ferð.

Ferðafélögum mínum þakka ég samfylgd og skemmtun

Páll Reynisson

Hlekkur á myndir:
picasaweb.google.com/palli.breyniss/Kolg...1sRgCOub6dnDmIPQyAE#

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

27 júl 2011 14:40 #4 by Páll R
Ég verð bara að láta þessa mynd úr Bjranarhöfn fljóta með. Þetta er sennilega eina myndin úr ferðinni þar sem við fjórir sjáumst á sömu mynd. Þeir Gísli, Snorri og Örlygur eru komnir úr göllunum og eitthvað að bjástra. Leiðangurstjórinn er hins vegar greinilega þreyttur. Hann er enn í gula gallanum heldur framlágur, linur í hnjám, hengir haus og þarfnast greinilega stuðnings.
En hver tók myndina?
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

27 júl 2011 14:03 #5 by Páll R
Sælir félagar.

Þá er nýlokið ferð á vegum kayakklúbbsins sem auglýst var sem "Kolgrafafjörður-Grundarfjörður, 23.-26. júlí".

Við vorum fjórir sem ýttum á flot í Hofstaðavogi 23. júlí, Örlygur, Stefán Snorri, Gísli HF og undirritaður. Veður var gott, NA-gola eða kaldi og bjart.
Til þess að gera langa sögu stutta tókst ferðin öll eins og best verður á kosið. Veðrið lék við okkur, ef frá eru taldir tveir stuttir kaflar frá Hrútey að Bjarnarhöfn og á hluta leiðar inn Kolgrafafjörðinn, þar sem gjóstur í móti jók fyrirhöfn okkar um stund.
Margt var að skoða, svo sem eyjar, landslag, söfn, gamlar minjar og fleira smálegt. Sjálfur naut ég ferðarinnar í botn og vona að félagar mínir geti sagt það sama.
Mjög bráðlega mun ferðinni verða gerð betri skil á korknum og/eða síðunni. Til gamans læt ég nú fylgja kort af róðrarleið okkar samkvæmt GPS.

Páll R
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum