Hér stefnir í gríðarlegt kapp og það vel. Ég sjálfur, ósigraður Hvammsvíkurmeistari, ætla líka að mæta enda býst ég við lágmarksvindi upp á 14 m/s. Helst á móti.
Ekki þýðir annað en að halda sig við þá flokkaskiptingu sem ákveðin var snemmsumars. Til upprifjunar er flokkareglan birt hér:
Annars vegar: Keppnisbátar og brimskíði (þ.m.t. Rapier, Ocean X, Nelo og brimskíði)
Hins vegar: Ferðabátar (þ.m.t. Kirton Inuk enda var hann smíðaður sem hraðskreiður ferðabátur og hefðbundnir grænlenskir kayakar, að uppfylltum skilyrðum*)
Veitt verða verðlaun í báðum flokkum, þ.e. viðurkenningarpeningar. Bikarar í keppnum verða afhentir þeim sem eru fyrstir í mark, óháð bátaflokki.
Sá verður Íslandsmeistari sem fær flest heildarstig í Íslandsmeistarakeppninni. Ræðarar geta sem sagt orðið Íslandsmeistarar þótt þeir hafi aðeins keppt í flokki ferðabáta. Sem fyrr munu innbyrðis úrslit í Hvammsvíkurmaraþoni skera úr um hver sigrar, að því gefnu að keppendur verði með jafn mörg stig eftir maraþonið. Í maraþoninu er ekki tekið tillit til þess hvort viðkomandi var á keppnisbát eða ferðabát enda mikilvægt að menn geti skipt yfir í stöðugri bát ef þeim líst ekki á aðstæður fyrir keppnisbáta. Þeir sem keppt hafa á ferðabátum er einnig frjálst að skipta yfir í keppnisbáta.
*Til þess að hægt sé að samþykkja hefðbundinn grænlenskan kayak í keppnir Kayakklúbbsins, verður hann að vera með vatnsheld flotholt í stefni og skut sem eru tryggilega fest. Í alþjóðlegum reglum um sjókayakkeppnir er gjarnan ákvæði um að bátur sé með a.m.k. eitt vatnshelt hólf. Brimskíði uppfylla þá kröfu.