Fid. 15.09.'11 að kvöldi.
Þetta var farið að verða grunsamlegt, Páll R vildi ekki fara, Palli formaður hætti við og Eymi sem var að leggja af stað hringdi og spurði "hvernig líst þér á þetta?" Ég sá skilti vegagerðarinnar utan við borgina "Þrengsli 8 ". Voru þetta kannske ekki m/s heldur gömlu vindstigin? Það var slagviðri við Sandskeið og þoka og rok ofan við Litlu kaffistofuna.
Ég losnaði úr vinnu 16:15 vestur við HÍ, komst af stað úr bænum 17:15 og á sjó 18:15. Það var bara fínt veður við sandinn, um 6-8 m/s af SA og aldan var lítil við grjótgarðinn en stærri nær Hafinu Bláa. Sjórinn var einkennilega sléttur í víkinni við garðinn og það var lýsislykt af honum þar!
Við Eymi vorum að þvælast á sjó í klukkustund, tókum veltur "undir" öldur sem ætluðu að velta okkur hvort eð var o.fl. Eitt sinn endaði brun með brattri veltu hjá mér um 30 m frá fjöru og ekki tókst að velta upp - á hvorugan veginn vegna straumláta undir. Sem ég svamlaði við bát minn kom Eymi og bauðst til að bjarga mér af alkunnri greiðasemi sinni. Þegar ég reyndi að grípa í stefni hans seig ég niður í dal og snerti botn um leið og stefni hans reis um 2 m fyrir ofan mig. Við hættum þessar hættulegu björgun og ég hélt í stefnið á bát mínum sem dró mig að landi í rykkjum, um leið og öldurnar fóru yfir. Það er mikilvægt að halda sér ekki í skut, þá fyllist mannopið og báturinn fylgir þá öldunni á hennar hraða og skilur mann eftir eða fer illa með fingurna.
Sem sagt, góð og skemmtileg æfing eins og oftast nær.
Ég er þó haltur á öðrum fæti af einhverjum óskiljanlegum ástæðum eftir þessa gönguferð á botninum.
Það má alveg spá í að fara aftur á morgun eða næstu daga
- en það þarf að skoða ölduspána, gæti orðið óviðráðanlegt.
Kv. Gísli H. F.