Fimmtándi félagsróður ársins fór af stað í morgun með sextán félögum. Stefnan var tekin út í Kollafjörð í austangjólu og útfalli. Afar þekkilegt sjólag það og síst til hrekks. Þegar komið var út fyrir Álfsnesið beið Kollafjörðurinn með obbolítið pus á stjórnborða handa okkur og fyrr en varði var hópurinn kominn yfir fjörðinn og settist undir vegg á hinu kunnuglega rauða sumarhúsi. Margt bar á góma í kaffistoppinu, Sundabrautin og málmeitranir í matvælum ásamt sturtuböðum sjósundmanna innan Kayakklúbbsins. Nóg um það, að áningu lokinni tróð fólkið sér í báta og gusaði sér á frábæru lensi út í Lundey þar sem leikar æstust svo mikið að einn félaginn réri með kjölinn uppi smáspöl og fór að lokum á sund. Formaðurinn var fljótur í félagabjörgun og áfram var róið með sekúndumetrana 8 í hryggsúluna fyrir Lundey og þaðan heim í Geldinganes. Urðu þetta tæpar tíu mílur og að mati undirritaðs hinn fínasti róður.<br><br>Post edited by: Orsi, at: 2007/04/21 19:02