Þær eru margar góðar minningar okkar eftir kayakróðra.
Í BCU matinu s.l. mánudag var ég í hópi með Gumma Breiðdal, Páli R., Örvari, Pétri Hill og Rabba. Veður var gott en undiralda sem olli fyllum og nokkru útsogi við fjöruna, líklega 2ja m hæðarmun í hverju öldusogi. Við fengum það verkefni að lenda öllum 6 bátunum örugglega og sjósetja í malarfjöru í krikanum NA við klettatanga sem gengur norður úr Geldinganesi. Ég átti að vera 4* gæd við lendinguna og Gummi við sjósetningu en allir hinir óvanari skjólstæðingar. Vandamálið var ekki hæfilega grýtt fjaran, heldur að hinn hópurinn var kominn í matarhlé í mjúkri grasbrekku og við vorum orðnir svangir.
Nú fór í gang eitt flottasta samspil liðsheildar sem ég hef verið hluti af í þessu sporti. Stjórnandinn sá um að gefa fyrirmæli á réttu sekúndubroti, bátarnir runnu hátt í fjöruna á öldunni og settust í mölina milli tilbúinna handa sem kipptu þeim hærra upp og næsti bátur kom á næstu öldu.
Við sjósetningu rann hver kayak í kjölfar þess næsta á undan niður brekku á baki öldu sem nam staðar andartaki áður en hún sogaðist út á ný og hraðinn var rúmlega góður skokkhraði eða um þrefaldur venjulegur róðrarhraði.
Þetta var eins og að vera í kór eða hljómsveit - mér kemur ekki annað í hug til samlíkingar í bili, en eftir situr góð tilfinning um að hafa ásamt góðum félögum verið hluti af litlu meistarastykki, sem er horfið um leið og stundin er liðin hjá eins og sandkastali sem hverfur undir háflóð.
Kveðja,
Gísli H. F.