BCU_IS_2011

01 okt 2011 10:54 #1 by Gíslihf
Replied by Gíslihf on topic Re: BCU_IS_2011
Sælir félagar.

Trúlega er þetta hressilegur róður hjá ykkur nú í útsynningi en
ég er staddur á Skáni og hér er logn og 20°C

Ekki væri ég fær um að fara á sjó nú, því að ég er með flensu eða kvef með hita og var einmitt andvaka nóttina áður en ég tók að rita þessa pistla. Þá fór hugurinn í gegnum þetta allt í smáatriðum.

Markmiðið virðist vera að nást, að hægt sé að rýna og ræða atvik á sjó og læra af því en rétt er að benda á að það hefði ekki verið hægt ef Páll hefði ekki opnað málið með því að segja sjálfur frá.

Oft gerist eitthvað í róðrum okkar, en af kurteisi minnist síðan enginn á það - og fáir læra nokkuð af því.

Ég læt staðar numið hér, en fróðlegt væri að fá ábendingar um lesefni, þar sem lýst er almennt viðurkennum (BCU) vinnubrögðum við að leysa úr vanda og atvikum sem upp kunna að koma í kayakróðrum.

Kveðja,
Gísli H. F.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

30 sep 2011 18:20 #2 by Páll R
Replied by Páll R on topic Re: BCU_IS_2011 CLAP
Þetta fer nú verða nokkuð ýtarleg greining. Sérstaklega er ég hrifinn athyglisgáfu Gísla, en hann man þetta í smáatriðum. Verst að hann skyldi ekki vera dómarinn. En þeir Simon og James hafa sínar starfsreglur og eru þaulreyndir og vita væntanlega hvað þeir eru að segja, og hafa líklega séð eitthvað þessa daga sem þeir voru ekki alveg sáttir við. Þeir hafa vafalaust viljað fá afgerandi stjórnum við Geldinganesið þega lestarlúgan fylltist hjá Örvari. Það má segja að við þær aðstæður sem voru var þetta ekkert vesen, en eins og Simon benti á, þá hefði þetta verið mun erfiðara í einhverri öldu, og þá er mikilvægt að nota bestu og fljótlegustu handtökin.

Við brotin, sem ég skoðaði með einu gegnumróðri, leist mér ekki á þetta og taldi best að hætta við. Hugsanlega of varkár. Það var smástreymt en stutt í lægstu sjávarstöðu. Til þess að leiða þarna í gegn hefði því mátt eyða meiri tíma í skoðun og keyra svo. Já og góð sjókort vantaði.

Ingi tekur djúpt í árinni. Ég held að virkilega heimsklassa ræðara sé varla að finna hér. Maður sá eilítið til þessara atvinnumanna í Wales 2007. Það var ótrúlegt hvað þeir voru snarir í snúningum og flinkir að stjórna bátnum á alla lund.

En í kvöld er hvasst en spáir lægjandi með morgninum. Er þá ekki bara að skoða hvort verði skemmilegar aðstæður að kljást við í félagsróðrinum í fyrramálið .

Páll R

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

30 sep 2011 17:40 - 30 sep 2011 18:07 #3 by Ingi
Replied by Ingi on topic Re: BCU_IS_2011 CLAP
Þessar umræður er gagnlegar og þetta BCU prógram hefur skerpt verulega á mörgum atriðum sem snúa að öryggi okkar. En miðað við þær lýsingar á þessu tiltekna atviki þá held ég að Páll hafi brugðist hárrétt við. Hann hugsar fyrst og fremst um öryggi allra. Við verðum að taka það með í reikninginn að þessir menn eru ókunnugir hér.

Margir ræðarar hérna eru á heimsmælikvarða og er Páll R einn af þeim.


kveðja,
Ingi

btw: tides.mobilegeographics.com/locations/5297.html

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

30 sep 2011 17:38 - 01 okt 2011 12:22 #4 by palli
Replied by palli on topic Re: BCU_IS_2011 CLAP
Mjög flott að fá umræðu hér um þessi mál. Því ítarlegra því betra.

Varðandi Avoidance í CLAP þá skildist mér á þeim James og Simon að þar væri pælingin að forðast mögulegar hættur þegar þú ert að fara með hóp einhverja skilgreinda leið. T.d. ekki fara of nálægt skerjum sem brýtur á þegar þú ert að þræða fram hjá þeim með hóp. Þeir vildu greinilega ekki að maður bakkaði út úr aðstæðum sem þeir báðu mann um að takast á við þótt þær væru rúmlega það sem 3 stjörnu ræðarar eiga að ráða við. Þetta hefði mátt koma betur fram áður en prófið fór í gang, en við Eymi græddum þarna á að vera í seinna hollinu, því þeir lögðu mikla áherslu á þetta atriði við okkur. Athugasemdir varðandi þetta höfðu greinilega skilað sér til þeirra.

Svo er ekki sama hvernig maður hættir við. Þegar ég reri með á þriðjudeginum var hætt við einmitt þetta sama brot út af golfvellinum á Seltjarnarnesi - og það vakti ekki lukku hjá Simon. Hann viðurkenndi að vissulega ætti ekki að tefla á tvær hættur ef það væri möguleiki á blindskerjum í miðju surfi. Hins vegar hefði hann viljað sjá leader skoða aðstæður mjög vel, róa inn fyrir og á móti brotunum til að skoða hvort þarna væru klettar að koma upp og ekki snúa frá fyrr en búið væri að sannfærast um að þarna væri ekki ráð að fara með hópinn í gegn. Þeir vildu greinilega að leader mynd ekki hætta við neitt nema með mjög afgerandi rökum.

Annars var mjög greinilegt að CLAP er eitthvað sem þeir horfa mjög stíft til. Þeir vilja að maður geti rökstutt alla fjóra þættina þegar maður segir þeim hvernig maður leiðir hóp í gegnum torfæru og hvar maður staðsetur sig.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

30 sep 2011 16:39 - 30 sep 2011 21:49 #5 by Sævar H.
Replied by Sævar H. on topic Re: BCU_IS_2011 CLAP
Án þess að ég sé að blanda mér í þessi BCU próf ykkar þá kemur mér á óvart að ekki virðist notast við sjókort -ásamt landakorti. Landakort gefa afar takmarkaðar upplýsingar um sjóinn og engar dýptartölur-en góð með að sýna strandlengjuna. Umhverfis Seltjarnarnes hagar svo til að grandar ganga neðansjávar bæði suður og norður af nesinu og fara á kaf á flóði og í vestanátt myndast mikið brim um þá. Síðan eru það skerin :
Kerlingasker liggur um 700 m vestur af Suðurnesi það fer á kaf á flóði en stórhluti þess er á þurru á fjöru, Á þessu skeri brýtur alltaf í hafátt-langmest á fjöru.
Um 300 m suður af því er Keppur hann er mun minna brotasvæði en samt varasamur og síðan um 6-700m þar fyrir sunnan er Jörundarboði sem einnig brýtur vel á. En langvarasamast er Kerlingaskerið fyrir okkur sem siglum þarna um vegna þess hve stórt það er og grynningar miklar umhverfis hæsta púnktinn.
Allt er þetta ljóst á sjókortum með mikilli nákvæmni.

Góða skemmtun

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

30 sep 2011 14:15 - 30 sep 2011 16:57 #6 by Gíslihf
Replied by Gíslihf on topic BCU_IS_2011 CLAP
30. sept.2011/GHF.
Síðari matsdagur 20.9.2011 – CLAP.

Enn vitna ég til Páls R., sem segir: “Það er annars vafalaust gagnlegt að ræða hinar ýmsu ábendingar sem þeir Simon og James komu með við hvern einstakan, hvort sem viðkomandi stóðst matið eða ekki. Væri gaman að heyra frá öðrum af því er fram líða stundir.”

Ég tek undir það að gagnlegt væri að safna saman athugasemdum frá öllum síðar, nafnlaust ef menn vilja, en þessi pistill er til að rýna betur það sem Páll R. segir um atvik þegar hann átti að leiða hópinn gegnum brot á blindskerjum: “Einnig var ég víst of varkár við brotin út af Seltjarnarnesi þar sem ég taldi möguleika á berum klettum í öldudölum.”

Ég ætla nú að segja söguna af þessu atviki:
Við vorum staddir út af Seltjarnarnesi sunnan eða SV við Seltjörn og nokkru utar braut á blindskerjum, en liðnar voru 2-3 stundir frá háflóði og sjávarstaða því lækkandi. Á korti LMÍ sé ég nafnið Kerlingasker en líklega er það sunnar. Við héldum nær og ljóst var að stærstu brotin voru 2-3ja m há og náðu yfir um 200 m breitt svæði, en þar fyrir utan var gott í sjóinn með haföldu innan við 1 m. Páll (leader: L) fékk það hlutverk að fara með hópinn gegnum þetta brotasvæði. Hann var ekki fús til þess, af og til var eins og leið gegnum miðjuna en ekki lengi í einu. L var með sjókort á dekkinu og sá að þessi blindsker standa upp úr á fjöru, sem segir okkur að í slíkum öldum getur þú lent á grjóti í öldudal, enda kom það á daginn þegar L reri í gegn til að kanna leiðina að hann lenti augnablik í þara.
James (coach: C) ítrekaði að hann vildi að L færi með hópinn í gegn og ætlunin var að L færi fyrst og fylgdi svo okkur í tveim hópum. Svo fór svo að aldan datt niður, á þeim 20 mín sem liðu, fyrst við hik L og tímann sem tók að róa fram og til baka. C var líklega ekki hress því að hann hafði ætlað að láta “tilraunadýrið” Guðna Pál (G) velta á versta stað og reyna á hvernig L mundi leysa úr atvikinu, líklega með því að fara í gegn og húkka í bátinn og draga bát og “fórnardýr” út úr því versta og bjarga því svo ef það væri ekki of seint 
Þetta vissi L ekki og var tregur til, enda var dagljóst að enginn 4* leader mætti fara með 3* ræðara gegnum þessar aðstæður nema í neyð. Í gögnum BCU er talað um aðstæður sem hæfa, en það er m.a. eftir því sem ég best man “moderate surf” ekki yfir 1 m og ekki með brotum. Það væri því að fara út fyrir rammann fyrir aðstæður (e: remit) að hlýða C. Það er því eins konar siðklemma að fá svona fyrirmæli, þú átt að segja nei, en þú átt líka að hlýða. Ef C hefði sagt, “ við erum með kletta á báða vegu og getum ekki snúið við” eða annað í þeim dúr, eða L hefði sagt þetta er utan við “remit” 4* prófs og ég á skv. CLAP reglunni (Communication – line of sight – avoidance – position) að forðast þessar aðstæður og snúa við eða eitthvað í þeim dúr - þá hefðu báðir aðilar verið á "sömu blaðsíðu".

Hvað var svo að þessu sem ætti að gefa mínus í BCU mati?
Ekkert, niðurstaða mín er aftur sú, að L gerði ekki mistök en hann fékk ekki tækifæri til sýna hvernig hann mundi bregðast við tilteknu neyðaratviki. C hefði átt að vera hreinn og beinn og virða mat L á aðstæðum en segja að hann ætlað að setja um neyðaratvik sem leysa þyrfti úr og ég er viss um að L hefði gert með sóma.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

29 sep 2011 12:23 - 29 sep 2011 12:26 #7 by Gíslihf
29. sept.2011/GHF.
Matsdagur 19.9.2011 – Nál Kleópötru.

Páll R skrifar í öðrum spjallþræði: “Það er annars vafalaust gagnlegt að ræða hinar ýmsu ábendingar sem þeir Simon og James komu með við hvern einstakan, hvort sem viðkomandi stóðst matið eða ekki. Væri gaman að heyra frá öðrum af því er fram líða stundir.”

Þetta BCU-mat er líkt munnlegu prófunum í gamla MR að maður gat verið heppinn eða óheppinn með efnið sem maður dró á eins konar lottómiða til að vera spurður út úr. Páll lenti í þeirri stöðu að verða ábyrgur fyrir að leysa úr atviki (incident), sem kennt er við “nál Kleópötru” en ekki er víst að við hin hefðum staðið okkur betur. Hann segir um þetta:
Annað sem ég kunni ekki næg skil á var hvernig hentugast væri að tæma bát með opna fremri lestarlúgu. Þar voru félagar mínir snarir í snúningum og notuðu handdælur til tæmingar, en auðveldast þykir víst að velta bátnum á hliðina og hella þannig mesta sjónum úr og tæma svo að fullu með því að ná honum upp á eigið dekk eins og venjulega er gert. Um leið passaði ég ekki upp á að koma þeim sem hvolfdi úr sjónum sem fyrst, þ.e. upp á t.d dekk einhverra annarra.”

Ég ætla nú að segja söguna af þessu atviki:
Eftir vel heppnaða sýningu á lendingu og sjósetningu og matarhlé, fórum við aftur á sjó norðan við mitt Geldinganes. Simon segir við Pál R á þessa leið – “þú er leader núna og ferð með hópinn vestur með nesinu, leyfum hópnum að róa án mikillar stýringar, en ef eitthvað kemur upp á átt þú að sjá til þess að málið verði leyst.” Við skulum kalla Símon C (coach), Örvar G (Guinea pig), Pál L (leader), mig M1 (í Mati no 1), Gumma M2, Rabba M3 og Pétur Hill M4.
L og M1 róa afslappað vestur með í þægilegri fjarlægð frá klettum, M1 M2 og M3 eru svolítið aftar og nær landi og þræða milli kletta en C og G eru komnir utar um 50-70 m frá og eitthvað að bralla saman. C er nær og skyggir á G en svo sér maður í hvítan botn eins og G sé að æfa hliðarlegu. Það gat ekki verið alvarlegt, með C við hlið sér! Við Páll – afsakið L og M1 hætta að róa og spá í hvað sé á seyði, en M3 sem var aftar er þegar kominn á fulla ferð í átt að fórnarlambinu G. C rær frá og nú sést að G er í sjónum og annar endi báts hans sokkinn. Ef svo heldur sem horfir mun hólfið fyllast og kayakinn standa á endann eins og nál upp í loft og þegar við komum nær sést að dekklúgan er horfin, trúlega komin í bát C!
M2, M3 og M4 eru komnir að bátnum á um hálfri mínútu og hefjast þegar handa af samhæfingu og öryggi. Ekkert amar að G sem er í þurrgalla í volgum haustsjó og hann heldur sér í eitt stefnið og bíður frekari fyrirmæla.
M2, M3 og M4 leggja bátunum samsíða þeim sökkvandi, toglínu er brugðið undir sökkvandi endann og lyft, tvær lensidælur eru virkjaðar jafnskjótt og lúgan kemur upp og G beðinn að leggjast á stefnið sitt til að gefa vægiskraft. Um þetta segir á hinni virtu fræðslusíðu:
www.atlantickayaktours.com/pages/expertc...scue-Skills-11.shtml
“if the swimmer's well being will not be compromised by immersion, then he can help to lift the flooded boat”
Samtímis er árafloti troðið inn og blásið upp. L og M1 sjá að allt gengur hratt og fumlaust fyrir sig og einbeita sér að því að leysa lúguvandann. Strap finnst bak við sæti L og plastpoki í daghólfi M1, önnur lausn hefði verið að nota Duct teipið. Plastpokinn er strappaður yfir lúguna og málinu lokið með venjulegri félagabjörgun. Allt hefur þetta tekið um 4-5 mín. og hópurinn er ánægður með að hafa með samstilltu átaki leyst vanda fumlaust sem er óleysanlegur fyrir einn og erfiður fyrir tvo.

Hvað var svo að þessu sem ætti að gefa mínus í BCU mati?
Þetta var dagur persónulegrar færni (skills), hópstjórn var aukaafurð og á þessum rólega legg er ekki víst að M3 hafi vitað að L átti að stjórna lausn á atvikum. M3 tók því frumkvæðið til að sýna persónulega færni og L sem sá að allir unnu sitt verk af öryggi greip ekki inn í heldur fylgdist með á hliðarlínu eins og góður leiðtogi gerir.
Hópurinn gerði þau “mistök” að vinna saman sem einn maður í stað þess að leika óttaslegna 3* ræðara og einn kaldan í sjónum og L að taka ekki völdin og stjórna hátt og skýrt á ensku.
Niðurstaða mín er að L gerði ekki mistök en hann fékk ekki tækifæri til að sanna sig.

Meira um annað atvik í næstu færslu.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

29 sep 2011 09:10 - 29 sep 2011 09:21 #8 by Gíslihf
BCU_IS_2011 was created by Gíslihf
29. sept. 2011/ GHF.

Nú er þessi BCU törn haustið 2011 liðin hjá.

Ég var með á mánudag og þriðjudag 19.-20. sept. þar sem tveir hópar voru í mati en veit ekki nánar hvernig næstu þrír dagar gengu fyrir sig með þriðja matshópi og þjálfun hóps fyrir næsta ár. Korkurinn er góður vettvangur til að ræða almennt um framkvæmd BCU og ýmis tengd atriði á upplýsandi hátt, án þess að vera of persónulegur.

Við Íslendingar erum þekktir fyrir það að vilja undanþágur og sérlausnir allt frá þjóveldisöld og það er ekkert öðruvísi í tengslum við BCU. Ef ég er rétt upplýstur, þá hefðum við ekki mátt fara beint í 4* þjálfun án þess að hafa áður farið upp stigann úr neðsta þrepi, þ.e. eina, tvær og þrjár stjörnur á undan. Eftir breytingu á BCU kerfinu haustið 2007, sem var þá aðlagað að miklu stærra bresku heildarkerfi, UKCC (UK Coaching Certificate), fyrir þjálfun og leiðsögn á sviði útivistar og íþrótta, stóð okkur þó til boða tímabundið að hoppa á vagninn, með þeim rökum að hér væri vel þjálfaður hópur sjókayakfólks, sem ekki ætti svo auðvelt með að sækja námskeið í UK og það enn síður eftir hrunið.

Enn ein undanþágan var svo veitt þegar fyrsti hópurinn fór gegnum BCU mat haustið 2009 daginn eftir þjálfun en úti er reglan sú að ár eða svo skal líða á milli þjálfunar og mats.

Haustið 2010 fór svo næsti hópur í mat í nóv. og var þá orðið nokkuð kalt. Svo fór að allur hópurinn féll, nema líklega einn "atvinnumaður" utan hópsins sem hafði þjálfað saman í klúbbnum. Niðurstaða Jeff, sem fór yfir frammistöðu okkar þá, var að margt væri vel gert hjá okkur en þó nokkuð um mistök og hann vildi að hér væri ekki kastað til höndunum og standardinn á Íslandi yrði hár.

Við félagarnir hittumst og bárum saman bækur okkar og fórum yfir athugasemdir og mistök. Sumt var augljóst, sumt vorum við ekki alveg sáttir við eða skildum ekki, en þegar frá leið vorum við sáttir við heildaniðurstöðuna, við skyldum ná meiri færni og vera öruggari með rétt "handverk" á sjónum.

Þetta var langur inngangur, en ég ætla síðan að skrifa aðra færslu um nýliðna matsdaga sem ég var þátttakandi í. Aðrir eru velkomnir í umræðuna og einnig ef leiðrétta þarf eitthvað frá mér, en tilgangurinn er fræðandi umræða sem eitthvað má læra af.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum