Þú baslar móti vindi 10 - 15 m/s gegnum Þerneyjarsund og skurður árablaða er á bilinu 60 - 90 gráður. Þegar komið er vel fram hjá NA-tanganum er óhætt að snúa vestur með eyjunni án þess að vera að berast upp í grjótið og nú eru vindur og öldur á hægri hlið.
Þú ert enn með áralag sem hentaði vel á móti vindi, með skaftið bratt og átaksblaðið þétt við síðuna. Þú ert staddur í öldudal, þar er skjól upp að öxlum í eina sekúndu, en hægra árablaðið sem þú ert að lyfta upp lendir þvert á vindstrenginn sem tekur kröftuglega í vegna skurðarins og um leið hallar aldan þér hratt til vinstri. Þú ert fljótur að stinga vinstra árablaði niður með síðunni til að taka á en hvað gerist þá?
Blaðið dregst með krafti inn undir síðuna, árin er lóðrétt augnablik meðan þú streitist á móti en næsta augnablik ert þú kominn á hvolf og ef þú ert ekki snöggur að velta þér upp vindmegin er stutt í að trefjakeipur þinn fari í flísar og þræði við brim á hvössu fjörugrjóti!
Það sem þú hafðir ekki hugsað út í fyrir utan alla hina erfiðu þættina var að bátinn rak undan vindi og því var í raun straumur inn undir síðuna frá vinstri.
Niðurstaða: Við þessar aðstæður skal hafa skurð lítinn og ekki róa með bröttu áralagi.