Þá er því lokið og tókst vel. Eymi slóst í för meö okkur en í fjörunni neðan við Grundahverfið var hvasst og á leiðinni að Brimnesi var fljótt ótrúlega mikil alda þótt vindur stæði af landi og óvægnar vindhviður á hlið.
Frá Brimnesi var gott lens og smá surf-sprettir, en Lundey sáum við ekki fyrr en hún tók að skyggja á ljósin í borginni. Sunnan við Lundey mættum við svo Lárusi og Sveini, en Hörður hafði tekið styttri róður við Geldinganes.
Það var ekki kalt, við Guðni erum sammála um að stundum er manni kaldara í stofunni heima, þegar ofnarnir eru dyntóttir.
Það eru smá vonbrigði með hraðann. Við vorum 1 klst og 32 mín og fannst það gott, en þegar að er gáð eru þetta ekki nema 10,4 km, litlu lengra en Lundeyjarhringur.
Meðalhraðinn hefur því verið 7 - 8 km/h þegar tekið er tillit til stuttra tafa í tvö skipti, fyrst vegna vettlinga, svo við að hitta félagana og dæla úr lekum bát.
Staðreyndin er sú að ætli maður að komast eitthvað áfram í lífinu t.d. frá A til B, er ekki gáfulegt að fara alltaf í hringi eins og við gerum í róðrum!
Kv. Gísli H F.