Það fór sem mig grunaði . Mér áskotnaðist nú um jólin ritverkið „Sjókajakar á Íslandi „ Eftir að hafa lesið það í átaksatrennu er ég þeirrar skoðunar að hér sé komið mjög þarft fræðslurit um grunnþætti sjókayakmennskunnar.
Mjög vel unnið verk hjá Örlygi Sigurjónssyni aðlagað okkar aðstæðum-samanþjappaður fróðleikur.
Ritið gefur byrjanda góða innsýn yfir sportið og einnig lengra komnum. Að kunna félagabjörgun og að vera í vel einangruðum klæðnaði eru lykilatriði sem lögð er rík áhersla á svo og notkun á árafloti við einmenningsróðra-og æfa notkun þess.
Þegar ég byrjaði í sportinu árið 2000 var eingöngu fyrir hendi dagsnámskeið . Fyrrihluti var í fyrirlestraformi og seinnihlutinn í verklegri æfingu á sjó. Efnislega var farið yfir flest af því sem fram kemur í ritinu svo sem áratök ,félagabjörgun og að velta bátnum og koma sér örugglega úr honum og með félagaaðstoð í bátinn aftur.
Með tímanum söfnuðust síðan heilir stakkar af erlendum kayakblöðum.
En námskeiðsundirstaðan reyndist lang mikilvægust . Og að hafa svona rit eins og Örlygur hefur sett saman hefði verið hrein gullnáma fyrir framhaldið.
Á þeim > 7000 km sem ég hef róið frá þessu dagsnámskeiði hefur aldrei reynt á félagabjörgun eða veltu á bát mínum – þrátt fyrir að oft hafi bárur skollið nærri skut eða síðu. Áraflotið var síðan kannað í sundlaugunum og veikleikar við notkun lagfærðir.
Reynslan á sjó við ýmsar aðstæður hefur samt verið skólinn mikli.
Í ritinu er farið yfir siglingabúnað,fatnað,mat og fl. í lengri sem styttri ferðum auk þess sem mikilvægi veðurspá og sjávarstrauma er vel tíundað.
Ritið er einkar vel ritað og fagmannlega unnið að ölluleyti. Þetta rit ætti hver sjókayakræðari að eiga sem uppfletti handbók á öllum tímum.
Hafðu þökk fyrir þessa bók „Sjókajakar á Íslandi-
Örlygur Steinn Sigurjónsson.
Meðfylgjandi eru myndir af upphafi hringróðurs Gísla H. Friðgeirssonar þar sem hann spáir í sjókort af fyrsta áfanga á 2020 km hringróðri sínum. Og frá róðri um Brattastraum sl. sumar.