Fyrirsögnin er bara svona til að menn kíki á þetta, nema að æfingin endaði þegar farið var að skyggja kl. 18:30. Við vorum 10 ræðarar sem fórum út úr Seltjörn við Gróttu í dag. Flestir í þessum hópi ætla að róa til Vestmannaeyja í mars ef gefur á sjó frá Landeyjahöfn og þess vegna má einnig kalla þetta forvarnaræfingu.
Það var fjara og þá þrengist opið út úr tjörninni af skerjum sem aldan rís á eins og hestur sem prjónar en fyrir innan var sléttur sjór. Stærstu öldurnar urðu af og til 3 til 4 metrar en það var þó mjög staðbundið, þannig að stöðluð mæling mundi líklega hafa gefið rúman metra.
Guðni Páll var óvenju prúður og varkár í dag og bað menn að fara bara einn í einu fyrst gegnum brotin til að sjá hvort illa færi. Ég vona hann sé ekki að fá flensu sá góði drengur.
Sjálfur fékk ég harðferð afturábak ofan á einu öldufaxinu en komst svo aftur af öldunni. Annað sinn í för ég þvert í öldureið og grófst svo undir, en þá gerðist það skemmtilega sem fagmennirnir hafa verið að segja mér, að ég hefði ekki þurft að kunna veltuna til að velta mér upp. Ég setti mig bara í veltustellingu, lyfti fremra blaðinu aðeins upp (= niður) og fartin á mér í kafi myndaði straum sem tók á blaðinu og vippaði mér hringinn! Gaman ef þetta væri alltaf svona lett.
Þessi æfing gleymist svo trúlega fljótt, því að ég er orðinn svo gamall að ævintýri lífsins eru farin að renna dálítið mikið saman
Kv. GHF.