Ég var fyrir stuttu beðinn að sjá um dagskrárefni í karlaklúbbi. Þeir vildu heyra um sjókayak og um róðurinn umhverfis landið kæra. Þarna voru margir vel að sér um landið og náttúru þess, hlustuðu með athygli á vangaveltur um sjávarföll og strauma, vildu sjá hvernig veltan væri og fengu sýnikennslu á gólfinu.
Það var mér umhugsunarefni að fyrsta spurningin, aður en ég hóf mál mitt var hvernig við stafsettum orðið fyrir báta okkar. Þegar ég sagðist helst vilja nota nafnið húðkeipur fékk það góðar undirtektir.
Í lokin fékk ég einlæga spurningu: "Erum við of seinir til að byrja á sjókayak?". Ég leit yfir hópinn og sagði eftir örstutt hik: "Ekki allir."
Aldur fundarmanna var á bilinu 60 til 90 ára.
Nú er bara að sjá hvort Maggi fær nemendur í eldri kantinum á næstu námskeið!