Ég hafði sett mér þjálfunarátak sem ég lét marga félaga vita um og kallaði marsátak. Það fólst í 6 viðburðum í þessari viku og þessi róður fyrir Gróttu var 3. viðburður en einmitt síðdegis hvessti að úr norðvestri. Við Eymi, Guðni Páll og Páll R fengum að finna fyfir því.
Við fórum á sjó í skjóli í sandfjöru sjósundfólks en við enda flugbrautar var skjólið búið. Vindstyrkur var breytinlegur á bilinu 10 til 16 m/s og var enga hvíld að fá, þó svitnaði maður ekki, vindur og ágjöf sáu um kælinguna. Eymi ræddi við björgunarsveitarmenn sem voru að lenda í litlu höfninn þarna um sjólagið og við kíktum upp á eiðið, hvítir brotaskaflar sáust hér og þar og við Gróttu sá ég "brimgos" þeytast upp í loft. Félagarnir höfðu á orði að fínt væri að fara á lensi til baka en voru þó til í að kíkja fyrir grandann, það er suðurhornið á nesinu. Svo fór að við fórum fyrst innan brota og svo út fyrir landbrotin, fyrir Gróttuvita og undan öldu að Akurey. Í myndasafni Guðna P eru ekki myndir af kaflanum fyrir Gróttu! Öldudalir voru um 4 m djúpir á kafla en vindurinn farinn að minnka, líkleg nú um 10 m/s.
Aldan heldur áfram fyrir innan Akurey í áttina að Eiðsgranda en skjól myndast sunnan við eyjuna og þar eru sandrif með litlu hliði sem við fórum í gegnum með aðfallsstraumi og í land í skjólinu þar fyrir aftan. Aðeins lengra til norðurs með fjörunni gusaðist brimið upp.
Nú var kveikt á næturljósum og lokið við róðurinn og bar fátt til tíðinda. Alls tók ferðin um fjóra og hálfan tíma en í góðu veðri er þetta um fjögurra tíma róður, við vorum nær klukkustund eftir áætlun í Akurey en unnum svo um hálftíma upp á undanhaldinu.
Það sem stendur svo upp úr hjá mér, er að þetta varð ofreynsla, þannig að púlsinn var of hár í margar stundir á eftir og ég var verulega kulvís eftir róðurinn. Ég læt því "marsátaki" lokið að sinni en daginn fyrir þennan róður braut ég Explorerinn í lendingu í klettavík.
Um kvöldið komu þrjár gamlar minningar í hugann sem minntu á þetta líkamsástand. Ein frá unglingsárum og tvær úr hringróðrinum, í bæði skiptin eftir 80-90 km róður. Eymslin í skrokknum, tilfinning að vera kominn að mörkum - og ég var búinn að gleyma því öllu, mundi bara eftir því góða og skemmtilega. Ofáreynsla má ekki koma fyrir þann sem ferðast einn til fjalla þá getur hann orðið úti. Í langferð á kayak þarf ávallt að hafa í huga varastaði til lendinga t.d. með þetta í huga.
Ég þakka þessu öflugu félögum fyrir góða samfylgd, það réðu allir vel við þetta sjólag og aðstæður, en allir voru þreyttir.
Gísli H. F.