Ágæt brimæfing er að baki í Þorlákshöfn í gær 17.4.12.
Einn félaginn lenti á sundi og gekk ekkert að komast upp í fjöruna og ég þekki þann stað af fyrri reynslu. Æfingasvæði okkar er norðan/austan við grjótvarnargarð hafnarinnar en straumur með bakflæði (e. rip) liggur út með garðinum. Það kann að virðast best að synda þar í land í krikanum, en það gengur ekki nema fylgja straumnum og ná landi utar og nær hafnarkjafti. Slikar aðstæður er alltaf rétt að reyna að sjá fyrir þegar komið er að nýju svæði.
Gunnar Ingi mun hafa tekið heljarstökk aftur á bak (pirouette) en því miður var enginn til að horfa á það eða ná af því mynd.
Sjálfur lenti ég tvisvar á sundi. Fyrra skiptið var á útleið og gekk þá vel að fara aftur inn í bátinn og róa út gegnum brimið með fullan bát. Síðara skiptið var á innleið og fórum við Egill undir sömu brotin sem "læddust" aftan að okkur.
Stundum er ekkert mál að klára veltu eftir slíkt, en stundum er eins og maður verði fastur niðri í einhverri straumiðu, sem spyrnir alltaf móti árablaðinu hvert sem maður reynir að hreyfa það og á ég enn eftir að skilja þetta betur.
Síðan er boðorðið að sleppa aldrei bátnum! Það er hægara sagt en gert, maður er rétt kominn upp úr og að átta sig þegar næsta brot skellur yfir, enn heldur maður bara í bríkina á mannopi, þá lendir báturinn þversum í brotinu sem rífur hann með sér á fullum hraða. Takist manni hins vegar að ná í handfangið fremst á stefni er hægt að halda bátnum. Mér tókst að hanga og þeytast með í eitt sinn, en eftir næsta brot var báturinn kominn langt frá mér. Ég sleppti ekki árinni, en var með áraband fest í dekkteygju sem tættist í ræmur þegar árin slitnaði frá.
Siðan þótti mér gott hald í árinni til að róa/synda með að landi uns Svenni kom og þáði ég með þökkum að hanga á skutnum hjá honum uns ég botnaði.
Þetta er mikið puð og vaknaði ég kl. 04 í nótt þegar dýpsta svefni var lokið og vakti um stund með eymsli hér og þar.
PS: Þetta er nú bara skemmtisaga frá eldri félaga - en fróðleg innlegg eru alltaf gagnleg.
Kv. GHF.