Við vorum nokkur sem mættum í fyrsta fimmtudagskvöld félagsróður sumarsins. Nokkur norðvestan strekkingur var á Eyðinu en ákvörðun var tekin að láta slag standa og sjósetja vestanmegin og sjá svo til hvernig mönnum litist á. Stefnan var sett á Fjósakletta og gekk ferðin þangað eins og eintómir stjörnuræðarar væru þarna á ferð. Eftir svona frammúrskarani frammistöðu ræðaranna var ekkert annað tekið í mál en að halda stefnunni svipaðri og nú tekið mið á vesturenda Viðeyjar. Þessa leið fenguð við dulítið meira pus en áður en ekkert þó meira en svo að allir höfðu gaman af. Þegar hingað var komið vorum við komin í var og dóluðum okkur í norðvestur með ströndinni að Viðeyjarferjubryggjunni þar sem við tókum kaffi. Heimleiðinn gekk vonum framar en þegar hér var komið sögu var allur vindur úr sögunni og dottið á með þessari líka rjóma blíðunni, spegilsléttum sjó og sólarlagi sem speglaðist í haffletinum, hreinasta snilld. Þeir sem réru voru Þórbergur, Magnús M, Siggi, Smári, Lilianne og undirritaður.
Takk fyrir góða kvöldstund
Össur