Ég læt það nú vera hve mikil snilldin er í mínu tilviki. Ég fékk að vísu klapp og viðurkennigarhróp í hópi lengra kominna við þessar miklu sjávarfallaflúðir (tidal races) einn daginn. Þá fór ég hálft heljarstökk á Romany bátnum og síðar nokkurs konar hringdans. Hvoru tveggja var þetta þó óviljandi. Heljarstökkið gerðist þannig að ég reyndi að hanga í standandi öldu móti strauminum en hún reisti mig upp á endann þannig að straumurinn náði taki á stefninu, en slíkt er alvanalegt á straumkayak neðam við flúðir. Þegar ég kom upp aftur var klappað og allir héldu ég hefði verið að leika þetta.
Næst gerðist það þegar ég var að æfa að skjótast inn í strauminn og út í lygnu aftur að ég hef líklega lent á lítilli hringiðu og báturinn snerinst hratt í þrjá heila hringi. Viðbrögð mín voru óvart þannig að ég jók hraðann en þegar ég sá hópinn framan við mig í þriðja sinn klappandi og "jibbýandi" tókst mér að komast út með nokkrum svima. Ég var beðinn að leika þetta aftur en færðist undan því!
Margt skemmtilegt bar við í þessari ferð, en ánægðastur held ég Peter sölumaður hafi verið, en hann rekur Kayakverslun á svæðinu. Hann var allur á hjólum kringum greifana frá Íslandi og hygg ég að Bretar hafi nú fengið allt IceSave tapið til baka.
Við Pétur Hill vorum saman á námskeiði hjá kennara að nafni Tom Tom. Hann var búinn að trúa mér fyrir því að hann væri okkur afar reiður vegna IceSave og ég sagði að við værum bankamönnum einnig reiðir. Daginn eftir vorum við Pétur Hill hjá Tom á 2ja stjörnu (Kanó) námskeiði. Þegar við þökkuðum fyrir daginn kvaddi Pétur Tom með kraftmiklu handtaki. Tom brá nokkuð við og sagði - "það er auðfundið að þú ert ekki bankamaður".
Við náðum báðir þessum stjörnum !
Kv. GHF.