Hvammsvíkurmaraþon - útdráttarverðlaun frá WOW

16 ágú 2012 09:17 #1 by Egill Þ
Laugardaginn 25. ágúst verður keppt í Hvammsvíkurmaraþoni og hefst það við Geldinganes klukkan 10 árdegis. Flugfélagið WOW veitir glæsileg ferðaverðlaun fyrir maraþonið, flugmiða fyrir tvo fram og til baka t.d. London eða Berlín. Allir einstaklingar og sveitir sem ljúka keppni fara í pott og dregið verður um hver fær verðlaunin.

Maraþonið er lengsta og mest krefjandi keppni ársins (40 km) sem róin er í þremur áföngum, 14,7 km, 13,5 km og 11,8 km með tveimur skyldustoppum. Keppnin er með hefðbundnu sniði og verður bæði boðið upp á einstaklingskeppni (í karla og kvennaflokki) og liðakeppni (einn flokkur). Á sínum tíma, þegar boðið var upp á liðakeppni, myndaðist ágæt stemning fyrir henni enda þykir sumum dálítið mikið að róa heilt maraþon. Í hverri sveit mega vera tveir eða þrír ræðarar og skipta þeir með sér þremur leggjum maraþonsins. (Geldinganes-Kjalarnes, Kjalarnes-Hvalfjarðareyri, Hvalfjarðareyri-Hvammsvík). Mestar líkur eru á erfiðu sjólagi fyrir utan Kjalarnes.

Þeir sem keppa í einstaklingskeppni þurfa að stoppa tvisvar á leiðinni, fyrra stoppið er í sandfjörunni fyrir neðan svínabúið við Brautarholt, og seinna stopp er á Hvalfjarðareyri. Athugið að þetta eru skyldustopp! Þar er boðið upp á svaladrykki og samlokur. Keppendur verða að dvelja þar í a.m.k. fimm mínútur áður en þeir mega halda af stað aftur. Stopptíminn (5 mínútur) er síðan dreginn frá lokatímanum, ef stoppið er lengra telst tíminn umfram 5 mínútur sem ferðatími.

Einstaklingskeppni í Hvammsvíkurmaraþoni gefur stig í Íslandsmeistarakeppninni. Í stigagjöf fyrir maraþonið er ekki aðgreint milli keppnisbáta og ferðabáta og mönnum er frjálst að velja bátaflokk óháð þeim flokki sem þeir eru í öðrum keppnum (frjálst að skipta upp eða niður um flokk). Þetta er einkum hugsað í öryggisskyni þannig að menn geti skipt í stöðugri bát ef þeim líst ekki á aðstæður fyrir keppnisbáta.

Keppnisnefnd mun á keppnisdegi upplýsa um lágmarkstíma til að skila sér í hvert kaffistopp, mun ákvarðast af tímamun milli fremsta og síðasta manns. Ástæðan er að erfitt er með öryggisgæslu ef langt er milli keppenda. Tímalengdin verður látin ráðast af veðuraðstæðum.

Eftir maraþonið verða veitingar í boði fyrir svanga ræðara.

Æskilegt er að keppendur tilkynni þátttöku hér á Korkinum tímanlega en að lágmarki þurfa þeir að mæta og skrá sig hálftíma fyrr ræsingu. Þátttökugjald í Hvammvíkurmaraþoni er 1.500 krónur, en í staðinn fá keppendur afhent neyðarblys til eignar. Gjaldið er eingöngu til að standa straum af kostnaði við blysin.

Öryggismál:
• Keppendur þurfa að hafa meðferðis tvö neyðarblys.
• Keppendur þurfa að hafa meðferðis farsíma í vatnsheldu hulstri með símanúmer tengiliðs í flýtiminni. Í stað síma má nota VHF talstöð.
• Sé mikill vindur á keppnisdag getur mótshaldari mælt fyrir um að keppendur festi öryggislínu við bát sinn þannig að hann reki ekki í burtu ef keppandi hvolfir.
• Í landi fylgist starfsmaður með keppendum, verður á útkikki með sjónauka á fyrirfram ákveðnum stöðum.
• Vonast er til Björgunarsveitin Kjölur á Kjalarnesi sjái um brautargæslu samkvæmt venju.
• Þrátt fyrir öryggisráðstafanir eru keppendur á eigin ábyrgð í keppninni.

Þeir sem hafa tök á að starfa við tímatöku og annað tilfallandi í tengslum við maraþonið, vinsamlegast hafið samband við Klöru (klara@ksi.is eða í 899-2627) eða Egil (egill.thorsteins@efla.is eða í 665-6067).

kv. Egill
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum