Gunnar Ingi fór með mér á kanó í dag frá Úlfljótsvatni niður að brúnni við Þrastaskóg. Það var nokkuð basl að bera bátinn niður fyrir stíflurnar og þegar það var sem erfiðast gerði flugnaskarinn harða hríð að nefi, eyrum og öðrum pörtum, sem við gátum ekki varið með bátinn í fanginu.
Það kom þó margfalt til baka í fjörinu þegar við fórum niður flúðirnar neðan við útfallið frá neðstu virkjuninni, Írafoss held ég hún heiti.
Þar sem við vorum að gera slíkt í fyrsta sinn var farið eftir bókinni og þuldi ég upphátt það sem ég taldi réttast hverju sinni og Gunni sem var á hjánum aftan við framsætið til þess að stefnið lægi hærra í öldudýfunum, brást skjótt við og beitti hinum ýmsu áratökum og brögðum af öryggi meðan ég beitti helst skutárataki og las upp úr bókinni!
Trúlega mátti sjá að við vorum stundum of seinir með réttu viðbrögðin en allt gekk þetta upp og var frábær reynsla. Eitt af því sem við prófuðum var að fara þvert yfir strauminn milli bakka með "bakkhliðarskriði" (reverse ferry gliding)og gekk það nokkuð vel þar til minnstu mátti muna að straumskil vippuðu okkur á hvolf. Það var því ekki æft að velta kanó og rétta við í þessari ferð.
Að lokum lágu um 14 km á 3 tímum að baki.
Kv. GHF.