Ég reri í blíðunni að Fjósaklettum þegar hópurinn í félagsróðri fór á sjó austan við Eiðið. Verkefni kvöldsins var fyrsta björgunaræfingin á kanó. Æfingin gekk vel í vissum skilningi, en björgunin ekki.
Ég hvolfdi bátnum milli tveggja Fjósakletta, henti spotta sem var fastur í miðju báts yfir botninn og rétti hann við með því að toga í spottann. Þá jós kanóinn sig fullan. Flotbúnaður frá Lettmann, eins konar loftpylsur svignuðu upp milli sætanna en máttu sín lítis til að lyfta bátnum. Ég á eftir að skrifa þeim e-mail, en eins og allir vita er falskt öryggi verra en ekkert. Brá lykkju fastri við stefni undir ökklann og þá var vandalaust að "stíga" upp í bátinn, vandamálið var bara að stefnið sökk! Settist eigi að síður á miðþóftu en hann maraði áfram í kafi, settist þá niður á botn í fullum bátnum, tróð pylsunum undir lappirnar og gott ef ég dró ekki líka djúpt að mér andann og hélt bátnum réttum, þá lyftu lunningarnar sér aðeins upp úr þannig að ég gat farið að ausa með fötu. Þetta hefði ekki gengið í vindi eða öldu.
Það má því segja að æfingin hafi skilað reynslu og þekkingu án þess að hægt sé að segja að björgun hafi tekist - það minnir á lækninn sem sagði aðgerðina hafa tekist vel, en sjúklingurinn hafi að vísu dáið!
Ég prófaði þetta svo aftur við Eiðið til að geta tekið myndir og bætti svo bílslöngu undir miðþóftuna og var það heldur betra.
picasaweb.google.com/gislihf/M201208Kano...1sRgCNuT3qKF-_PVoQE#
GHF.