Á morgun laugardag 10. nóv. er spáð um 15 m/s norðanátt, þegar félagsróður er á dagskrá.
Þá er ég aftur kominn á byrjunarreit í umræðunni sem fór fram á korkinum s.l. viku:
Á að setja efri mörk vinds fyrir almenna félagsróðra t.d. við 10 m/s ? Umræðan fór út í aðra sálma og enginn tók afstöðu til þess, nema að Sveinn Axel kvað stjórnina ekki eiga að skipta sér af því, ábyrgðin lægi hjá róðrarstjóra hverju sinni. Félagsróðrar eru ekki síst fyrir nýliða og óvana eins og sjá má á eftirfarandi tilvitnunum:
Á nýliðasíðunni: „Ekki halda að félagsróðrarnir séu lokaðir fyrir útvalinn hóp þrautþjálfaðra sægarpa. Þvert á móti eru þetta róðrar sem eru sérstaklega fyrir alla.“
Í öryggisstefnunni: „Stjórn Kayakklúbbsins hvetur nýliða eindregið til að sækja námskeið fyrir sinn fyrsta félagsróður og að fara ekki einir síns liðs í fyrstu æfinga-róðra. Stjórn klúbbsins beinir þeim eindregnu tilmælum til nýliða að í félagsróðri séu þeir ekki í sitt allra fyrsta skipti að setjast í bát.“
Við sem erum á lista yfir samþykkta róðrarstjóra erum flest með BCU 4* leiðsögupróf.
Með því að taka að okkur róðrarstjórn á morgun fyrir einhvern með minna en 4* færni værum við langt fyrir utan viðmið BCU og þar með að brjóta af okkur skv. siðareglum BCU og mætti trúlega svipta okkur 4* skírteininu. Við getum róið eigi að síður sem jafningjar og félagar og það stefni ég á að gera.
Það kann að vefjast fyrir einhverjum hvað ég er að fara með þessari umræðu, en ég trúi því að flest höfum við þá sjálfsvirðingu að óhætt sé að treysta okkur og að við leiðum nýliða eða óvana ekki út í ógöngur. Yfirlýsing klúbbsins um að „hver og einn beri ábyrgð á sjálfum sér“ breytir þar engu um.