Undirritaður, Guðni Páll, Lárus, Páll R, Sveinn Axel og Þóra reru suður fyrir Viðey en Össi og Sigurjón héldu sig í Eiðisvíkinni, enda er Sigurjón enn ekki kominn með langa reynslu.
Veður var eins og spáð var, stöðugur norðan vindur 10-12 m/s en hvessti af og til upp í 15-20 m/s eins og sjá má á töflunni fyrir Geldinganes
www.vedur.is/vedur/athuganir/kort/hofudb...vaedid/#station=1480
Við slíkar aðstæður sýnir það sig hve vel við erum staðsett þarna á Eiðinu, það eru víkur bæði vestan og austan við Eiðið og hægt að velja hvora ströndina maður heldur sig við. Þannig er oftast unnt að velja sér aðstæður við hæfi.
Nokkur læti voru við Fjósakletta og ein aldan tók mig með sér spotta en sleppti mér rétt áður en hún fór í klettavegginn. Út af höfðanum við Virkisfjöru var mjög hvass strengur á móti, á að giska 20-25 m/s og miðaði hægt um stund. Í skjólinu undir höfðanum var rætt saman um að óráðlegt væri að fara fyrir vesturenda Viðeyjar.
Ég stefndi svo í skjólið undir Kattarnefi, syðst í Vestureynni en Guðni Páll þurfti að leika sér eitthvað í brotunum við Hákarlasker áður en hópurinn kom í land. Að því búnu var farið sömu leið til baka.
Hvað er orðið af örnefnakorti Viðeyjar á vefsíðu klúbbsins ?
Ég var með róðrarvettling á hægri hendi opinn í lófanum og er nú með þrjár blöðrur þar en slíkt hefur ekki hent mig í mörg ár !
Ástandið við "félagsheimilið" okkar ber greinilega merki óveðurs s.l. vikna. Það væri gott verk næst þegar er gott veður og frostlaust að hreinsa pallinn, smúla gámana og hreinsa og smyrja slár og lamir á hlerum gámanna. Það er erfitt að komast að bátunum eins og er.
Kveðja,
Gísli H. F.