Ja vindur og sjólag voru þannig þegar við nálguðumst Gunnunes, að ég sá mér varla fært að svara í VHF stöðina, það var víst Egill að spyrja hvert við værum að fara!
Annað samskiptavandamál í morgun varð þegar ég var að setja bátinn á bílinn kl. 9 heima við. Ég skrapp inn í þvottahús/búr til að finna svampsessum til að sitja á í kaffinu í félagsróðri (!) þegar ég heyrði eins og í Tuma Þumli, lága rödd án þess að greina orðin. Var þetta einhver inni í þvottavélinni við hlið mér? Svo kom í ljós að ég var með símann á mér og þegar ég setti bátinn upp og hallaði mér að bílnum ýttist á símaskrárhnappin, síðan á fyrsta staf í nafni gamals vinar og loks á hringingarhnapp. Hann hafði farið að sofa kl. 4 um nóttina en sagði þetta vera í góðu lagi, hann væri hvort eð er alveg að fara að vakna!
Þetta minnir mig á það þegar ég ætlaði með yngri syninum (SBG) frá Sjálands-baðströnd út að Bessastöðum. Þetta var nokkuð snemma á fögrum sumardegi en hann var ekki mættur. Ég var ekki með gleraugun við hendina en ég man hvar S er og svo þegar ég sá þrjá stafi á skjánum ýtti ég á hringja. Ég var vanur að vera nokkuð ákveðinn við krakkana mína og um leið og svarað var sagði ég án þess að hlusta: Ég er mættur niðri í fjöru, ertu ekki að koma?
Það var þá Sveinn Axel (SAS!) sem var í símanum, á steinsofandi eftir lýjandi akstur í sumarleyfi á Vestfjörðum og vissi ekki hvaðan vindurinn blés. Hann er ekki vanur að neita áskorun um róður, en honum vafðist tunga um tönn og hefði ég viljað sjá hann þarna ringlaðan á nærbuxunum. Ég man ekki hvort ég er enn búinn að biðjast afsöknar en hætt er við að vinunum fækki ef svo heldur fram.