Gleðilegt árið, gott að hafa létt yfir umræðunni er kemur að æfingum.
Af mörgu er að taka, það sem bent hefur verið á er vissulega viðurkennt sem nothæft. Ávallt er þó gott að blanda æfingum til að auka fjölbreytnina og ekki síst notagildi þess tíma sem eytt er í styrktarþjálfun.
Styrktarþjálfun er að mínu mati nauðsyn ef ná á árangri í hvaða íþróttagrein sem er. Til að hámarka árangur af styrktarþjálfun, ber þó að hafa í huga gildi loftháðra æfinga, þar sem púlsinn er látinn halda sér í efri skalanum í lengri og skemmri tíma. Um leið og maður fer að mæðast að einhverju marki, bremsast öll geta svo verulega, að sá styrkur sem búið er að þjálfa kemur að litlu gagni.
Fyrst og síðast er þó lykillinn að gagni allra æfinga að hafa toppstykkið með í för, rétt hugarfar er sá þáttur sem að mínu mati getur breytt allra mestu er á reynir. Sú aðferð sem ég hef nýtt mér við að þjálfa hugann, er að vera í huganum búinn að framkvæma það sem fyrir stafni er. Hvort heldur um er að ræða keppni eða lengri róðra. Eitt er þó að ímynda sér hlutina, þegar að maður er fjarri aðstæðunum, annað er svo að láta hugann vinna eftir því sem maður hafði hugsað sér, er á hólminn er komið. Þreyta og það að þurfa að breyta út frá fyrirfram ákveðnum plönum getur dregið verulega úr manni þróttinn. Við þær aðstæður er rétt hugarfar öflugasta vopnið.
Sökum þessa finnst mér skipta gríðarlegu máli að þjálfa sig í raunverulegu aðstæðunum. Vera á sjó að glíma við það sem uppá kemur, til að hafa samanburð hef ég oft valið mér ákveðnar siglingarleiðir og svo stundað þær. Með því er hægt að mæla framfarirnar hvað best og framfarirnar eða vöntun á framförum fá svo að ráða framvindu æfinganna. Þetta á bæði við gagnvart keppni og lengri róðri.
Hver og einn verður hinsvegar að finna sér stað að byrja á, í samræmi við áhugasvið og fyrirætlanir - svo ber ávallt að hafa í huga að ekki er hægt að fara fram á meir en að maður hafi gert sitt besta.
Örli hinsvegar á grun um að hægt hafi verið að gera betur, er maður á réttri leið, og á þeim forsendum er skemmtilegra og meira hvetjandi að mæta á næstu æfingu.