Um BCU kerfið

04 jan 2013 12:19 - 04 jan 2013 12:47 #1 by Gíslihf
Um BCU kerfið was created by Gíslihf
Breska kanósambandið BCU (British Canoe Union) rekur umfangsmikið námskerfi með skilgreindum námskeiðum, prófgráðum og réttindum til að fara með fólk í ferðir og til að kenna og þjálfa í róðri með einni ár, en árin getur verið með einu blaði fyrir kanó eða tveim fyrir kayak. Ekki hefur þá allt verið sagt því að róðurinn, tengd námskeið og keppnir geta verið svig, kanósigling, "freestyle", maraþon, sprettur, póló, "surf", kanóróður, sjókayakróður, straumkayak og fleira.

Námsbrautir BCU eru þrjár:
  1. Námsbraut fyrir börn,Paddle Power og veitir allt að 5 prófstig.
  2. Námsbraut fyrir fullorðna sem gefur 5 stjörnu vottorð (Star Award Certificates). Fyrstu þrjú eru færnivottorð en þau tvö efstu veita réttindi til leiðsögu með hópa.
  3. Námsbraut fyrir kennara/þjálfara sem veitir réttindin „Coach Level 1“ og allt upp í level 5, en það kerfi er jafnframt kennt við UKCC sem er landskerfi fyrir íþróttaþjálfara í UK.
Margskonar reglur eru í kringum þetta námskeiðahald um inntökuskilyrði, reynslu, hlutfall kennara/nemanda, endurmenntun og ástundun til að halda réttindum, utanumhald um hver hefur gert hvað og um gildandi réttindi sem kallar á nokkuð skrifræði.

Svo eru mörg önnur námskeið til stuðnings, reglur sem kunna þarf og fara eftir t.d. um starf með börnum, réttindi og aðlögun fatlaðra, umgengni um náttúrna, ábyrgðartryggingar og æði margt fleira. Það kemur því ekki á óvart að mörgum Bretanum þykir kerfið flókið og þungt í vöfum.

Við sjókayakmenn á Íslandi höfum mörg farið í þjálfun og próf fyrir 4* leiðsögu á sjókayak - en eins og sjá má af framansögðu höfum við þó aðeins kynnst einum af þrem toppum þessa BCU-ísjaka.

Vegna vaxandi áhuga á yngri kynslóðinni og kennslu hef ég verið að velta þessu fyrir mér. Það er ekki hægt að nota BCU kerfið sjálfstætt hér á landi eins og staðan er í dag og námskeið og réttindi okkar eru vistuð á skrifstofum BCU í UK. Hér er ekkert aðildarfélag að BCU t.d. og þannig er ég sjálfur meðlimur í einu að fjórum landshlutasamtökum UK, nefnilega Canoe Wales.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum