Félaga róður með rísandi sól

07 jan 2013 17:36 - 08 jan 2013 15:08 #1 by Sævar H.
Það er ekki friður á Korkinum fyrir róðrarspjalli.

Í dag þann 7.janúar 2013 kl. 11.30 lögðum við kayakróðrarfélagarnir Hörður Kristinsson og ég upp frá Geldinganeseiðinu og rérum vestur Eiðsvíkina með stefnu á Fjósakletta.
Veður var mjög gott, logn ,hiti + 2 °C en útlit var fyrir að fljótt eftir hádegi myndi bæta verulega í vind frá austri.
Það varð því að taka tillit til þess við róðrarákvörðun.
Eftir að Fjósaklettum var náð var stefnt á Þórsnesið á sunnanverðri Viðey. Það var aðfall og að nálgast háflóð.
Ákveðið var að róa allt út að vestasta enda Viðeyjar við Helguhólinn .
Það gekk eftir í ljúfu róðrarleiði.

Við skerjatangann sem gengur fram í sjó við Helguhólinn varð mikið sjóslys þann 24. Okt. 1944 þegar kanadíski tundurspillirinn Skeena strandaði þar í ofsaveðri.
213 manna áhöfn var um borð.
Í nokkurri upplausn um borð fóru 36 frá borði á flekum . 15 af þeim fórust en hina 21 rak 8 km leið þvert yfir Kollafjörðinn og skammt undan Mógilsá þar sem þeim var bjargað.
Hinum sem eftir voru var bjargað í land í Viðey undir forystu Einars Sigurðssonar, skipstjóra á Aðalbjörgu RE.
Frækilegt afrek hjá Einari.
Ég er orðinn það fullorðinn að ég man þennan atburð mjög vel ,rúmlega sex ára gamall og átti heima á Rauðarárstíg 11, en skammt þaðan blasti tundurspillirinn við þarna á skerjatanganum og í langan tima eftir strandið.

Þarna réðum við Hörður ráðum okkar með framhaldið .
Fara fyrir vesturenda Viðeyjar og til baka að norðanverðu sýndist óráð vegna vinds að austan sem fór mjög vaxandi.
Ákveðið var að snúa við og róa sömuleið til baka.

Og þegar við rérum fram með blindskerjaklasanum sem Útflesjar heita og eru vinsæl hjá kayakfólkinu þegar undiralda brýtur á þeim, kom upp í hugann annað sjóslys ,sem saga Viðeyjar geymir.

Það var 7. apríl 1907 að gerði mikið SV ofsaveður ,nokkuð að óvörum. Auk margra skipa sem voru á ytrihöfninni í Reykavík var kútterinn Ingvar með 20 manna áhöfn.
Skipið tekur að reka undan veðrinu og í átt að Viðey.
Og að lokum strandar skipið á þessum skerjafláka sem heita Útflesjar.
Ekki var viðlit að koma mönnunum til bjargar ,hvorki frá Reykjavík né Viðey ,þrátt fyrir að stór skip lægju á ytrihöfninni –þvílíkt var veðrið.

Og mennirnir á Ingvari klifu upp í reiðann og festu sig þar- en haldið var lítið . Fólkið ,bæði í Reykjavík og Viðey horfði á, hjálparvana , alla nóttina, á mennina á Ingvari tínast einn af öðrum úr reiðanum og í hafið.

Lík þeirra rak síðan á land við Eiðið í Viðey og voru þaðan flutt til Viðeyjarkirkju.

Já , það eru ýmsar sögurnar tengdar Viðey ,en sem betur fer ánægulegri en þessar tvær hér að framan.

Og frá Útflesjum rérum við Hörður að austanverðu Eiðinu , tókum land,drukkum kaffi og léttum á okkur.

Þegar við lögðum upp frá Eiðinu var háflæði .
Klukkan var um 13 og sólin skein skært í hásuðri.
Það var greinilega farið að birta á skammdegishimninum.

Og nú rérum við fast með landinu og þræddum hverja vík, sem var mjög skemmtilegt svona á háflóðinu- sérstakt sjónarspil.
Þegar komið var fyrir Þórsnesið hafði vindur mjög færst í aukana úr austrinu-eins og spáð hafði verið.

Það var því talsvert puð að róa frá Sundabakka í Viðey um Fjósakletta og heim í aðstöðuna á Eiðinu í Geldinganesi.
Og þegar lent var höfðu um 12 km verið rónir á um 2,4 klst.

Ekki gátum við kvittað fyrir þessa för okkar í "Róðrarbókina" góðu það sem hver blaðsíða var þétt skrifuð - þar með sú síðasta.

Meðfylgjandi er GPS kort af róðrarferlinum

plus.google.com/photos/11326675796839424.../5830762695904105889
The following user(s) said Thank You: torfih

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum