Já ég sá einhverja umræðu um þetta í kommentunum á DV. Það segir kannski allt sem segja þarf
En það er fínt að ræða þessa "hættu" hérna á Kayakklúbbssíðunni.
Þarna eru miklir vatnavextir, áin mjög breið, straumhörð, og líklega frekar kalt vatn og loft. Helsta hættan er að ef að annar hvor þeirra syndir þá verður sundið langt, vegna þess að það þarf að synda langa vegalengd að bakkanum og það getur verið erfitt að synda í gegnum sterk straumskil. Helstu varnirnar við slíku óhappi eru að vera í för með góðum félaga, vel klæddur, og í góðu formi.
Það sem félaginn getur gert til að hjálpa sundmanni er að draga sundmanninn í land, draga bátinn í land þannig að sundmaðurinn geti einbeitt sér að sundina, eða verið móralskur stuðningur, haft augun opin og gefið leiðbeiningar.
Hvað með þetta mikla niðursog sem frægt er í Ölfusánni? Í fyrsta lagi er það mest undir Ölfusárbrúnni, en þeir eru að róa fyrir neðan hana. Í öðrulagi er það ekkert sem straumvatnsræðarar eru óvanir að fást við. Það má nefna sem dæmi að í Brúarhlöðunum, þar sem þúsundir gesta fara í gegn í rafting, er mjög sterkt niður sog. Þar hafa menn í fullum kayakskrúða sogast niður 4-5 metra og skotist upp eftir langan tíma, 10-30 sek. Þetta sog, sem mikið er rætt um, er mjög hættulegt þeim sem falla í ánna í ullarpeysu, gallabuxum, og stígvélum, en vel búinn kayakmaður sleppur yfirleitt nokkuð vel í gegnum þetta.
Svo í lokinn verður hver og einn að gera upp við sig hvort þeir hafi þá hæfni sem þarf til að fara út að róa, ekki bara í þetta skipti heldur alltaf. Í þessu video eru á ferðinni tveir mjög reyndir kayakmenn, sem valda þessum aðstæðum vel og hafa leikið sér við mun erfiðari aðstæður t.d. undir gömlu Þjórsárbrúnni og Austari Jökulsá.
Ég reikna með að það hafi ekkert upp á sig að ræða þetta í kommentunum á DV. En það er leiðinlegt að sjá hvernig þetta er sett fram þar sem Ofurhugar storka örlögunum, þegar þetta ætti frekar að vera Hressir gaurar skemmta sér í flóðunum.