Það styttist í að Guðni Páll hefji róður sinn umhverfis landið.
Ég sendi Guðna Páli kveðjur með línum úr bók sem ég er að ganga frá, um hringróðurinn 2009:
Ætla mætti að róður væri einföld iðja og látlaus endurtekning, vinstri, hægri, vinstri, hægri, en það er ekki svo einfalt.
Þegar róið er svo langa leið samfellt skipta öll smáatriði máli við áralagið.
Það á við um líkamsbeitingu og stöðu, hvernig árin hvílir í greipinni, fjarlæg milli handa auk vindu bols og axla.
Það á einnig við um beitingu árar, skurð árablaðs í vatninu, leið blaðsins í vatninu, hvernig því er lyft upp úr.
Við minnsta vind, hætta vinstri og hægri hlið að vera eins við róðurinn og stöðugt þarf að stilla áralagið að öldunni.
Gott áralag skilar bátnum vel áfram og fer ekki illa með líkama ræðarans.
Álagsmeiðsli í úlnlið, olnboga eða öxl geta bundið enda á ferðalag á stuttum tíma.
Það er lengi hægt að prófa sig áfram í svo löngum róðri ...stundum er gott að breyta um aðferð til þess að hvíla úlnlið, olnboga eða öxl.
Eitt af því sem ég óttaðist fyrir ferðina var að álagsmeiðsli eins og bólga í úlnlið mundu gera vart við sig.
Það er erfitt að gefa slíkum stað hvíldarfrí, þegar verið er að róa allan daginn.
Allar þessar vangaveltur voru í huganum á þessari leið - hvernig miðaði ferðinni, hve langt væri eftir og að halda réttri leið þrátt fyrir aðfallið sem hlaut að mynda straum inn Haffjörðinn. Mér leiddist því ekki eins og sumir halda og spurðu mig um síðar.
Kappið fyllir mann vissri vellíðan ... auk allra hugrenninga og tilfinninga sem fá að njóta sín í einverunni.
Kveðjur,
Gísli H. F.