Enn stendur sjósund fyrir dyrum. Skerjafjarðarsundið er á morgun, laugardag 27. júlí, og ræst kl 11. Skipuleggjendur eru eins og stundum áður búin að biðja okkur að athuga með að mæta og taka þátt í gæslu. Kayakarnir gegna því hlutverki að vera næst sundmönnunum og ef einhver þarf aðstoð þá fær viðkomandi sundmaður að hanga framan á stefninu á meðan beðið er eftir aðstoðarbát, en þeir lóna utanmeð.
Ég er búinn að láta þau vita eins og er að það sé ekki hægt að lofa neinu í þessum efnum, en þeir kayakmenn bara mæta sem hafa löngun til þess.
Sjálfum þykir mér gaman að mæta í þessi verkefni og það er alltaf mikið þakklæti til staðar hjá sundfólkinu eins og þeir vita sem hafa prófað að mæta. Þetta er líka fín kynning á kayaksportinu og klúbbnum.
Synt er frá Grímsstaðavör á Ægisíðu yfir í Eyri á Álftanesi – nánar um keppnina á
www.sjor.is
Það væri fínt að heyra í þeim sem hafa áhuga á að mæta svo ég geti látið aðstandendur keppninnar vita hvort einhverjir kayakar frá okkur verði á staðnum.