Mikið reyndi á notkun toglína í klubbferðinni í Þyrilsey á dögunum.
Eitt er áhugavert við tog, að afl aftari ræðarans nýtist betur þegar hann þarf ekki lengur að berjast við að halda réttri stefnu. Einn sterkur ræðari og einn aflminni fara því oft fram úr hópnum. Fróðlegt væri að rannsaka þetta nánar með tilraun, þar sem þrír svipaðir ræðarar kepptu, toglínuparið keppti við einn stakan. Síðan má skipta um hlutverk og vinna úr niðurstöðum með aðferðum rannsókna-tölfræði.
Orðin hafa stundum stöðvast í kverkummér þegar ég hef ætlað að bjóða konu drátt í róðri.
Eins og Ísl. samheitaorðabókin segir getur dráttur merkt amorsbrögð, ástfarir, eðlun, hvílubrögð, uppáferð og margt annað.
Sama bók segir einng að dráttur geti merkt tog, band, taum, drátt, hal, slef og fleira.
Ég er helst á því að tala um toglínu og bjóða eða veita tog og hafa einhvern í togi eða slefi.
Öllu ver líst mér á orðið flekun og að fleka sig saman en það var einnig notað í sömu ferð þegar hopurinn hætti að róa um hríð og sjólag gerði suma óvissa um jafnvægi sitt. Þá er gott ráð að tengja saman tvo eða fleir báta (e.: rafting) venulega með því að grípa í næsta bát eða halla sér á dekk félagans. Samheitaorðabók segir um sögnina að fleka: fífla, tæla, afvegaleiða, draga á tálar, fleka, táldraga; gabba, lokka, svíkja, véla og fleira áþekkt. Þetta er allt annað en tilgangur okkar sem er að styðja, hjálpa, uppörva eða fá stuðning.
Ég auglýsi eftir betra orði fyrir þetta en að fleka.