Seytján manns réru í gær í logni, áttleysu og ládeyðu og tóku strikið út í Lundey. Sjórinn var með eindæmum stilltur og svo heitt í veðri að einn ræðari varð að gera hlé á miðjum róðri til að fækka fötum. Er skýrsluhöfundi til efs að slíkt hafi áður gerst í félagsróðri. Varð mönnum eðlilega nokkuð brugðið. Og mitt í öllum þessum hita, hvað skyldi svo hafa verið umræðuefnið þegar í kaffistoppið kom? Jú, nefnilega Norðurheimskautið og pólferðir!. Uppátækjasemin í þessum klúbbi ríður ei við einteyming, það er á hreinu og þökk fyrir það.
Á heimleiðinni tók síðan ræðari nokkur upp á því að drekka sjó í því skyni að staðfesta merkilega, vísindarannsókn þess efnis að að nýru í mönnum ku ráða við að hreinsa 33 cl. af sjó á sólarhring. Tilraunin fór fram í formi síendurtekinna misheppnaðra veltuæfinga en sem betur fer voru nokkrir ræðarar tilbúnir til bjargar ef sjósúparinn myndi hætta að hreyfa sig neðansjávar. Tókst viðkomandi að gleypa sína 33 cl. og jafnvel meira - án íhlutunar bjargvætta.
Í land var síðan komið að ganga ellefu eftir nokkuð gæðamikinn róður og 10 mílna vegalengd á að giska.