Eftir stanslausar sunnanáttir með tilheyrandi vætutíð með örstuttum sólarglennum í allt "sumar" kom loksins almennileg vestanátt. Allar björgunarsveitir landsins í viðbragðstöðu og Kayakklúbburinn hélt í félagsróður kl 10 eins og gert hefur verið eins lengi og elstu menn muna. Haldið var í áttina að námum Reykjavíkurborgar. Þar var hópurinn þéttur og eftir smá rekistefnu var ákveðið að surfa tilbaka í áttina að Gufunesi. Vindur og alda voru af hávestan og kannski örlítið norðan við það, kannski hálft strik eða svo. Nokkrir ofurhugar böxuðu áfram á móti vindi til að geta fengið sem best surf inneftir en hinir skældust með ölduna aftan við þvert á stjór að Fjósaklettum. Hverjum hefði dottið í hug að Guðni Páll og Lárus hefðu byrjað sýnar stormæfingar í frákastinu af klettunm þar? Það var einmitt það sem gerðist og tældust fleiri í þær kúnstir og á endanum voru allir farnir að bjarga hverjum öðrum þarna í öldurótinu.
Klara, Þóra, Lárus, Guðni Páll, Egill, Sigurjón, Guðmundur, Orsi, Páll R og Ingi mættu og sjá ekki eftir því.