Einu sinni var maður sem langaði til að róa á kayak. Hann spurðist fyrir hjá kunningjum sínum og leitaði að einhverju almennilegu til að róa. Hann átti fullt af peningum og ætlaði sér að róa mikið. Eftir nokkra leit fann hann sölumann sem átti nokkra góða gripi til sölu. Nú hófust miklar pælingar og spekúlasjónir um hitt og þetta varðandi kayaka og eiginleika þeirra.
Sölumaðurinn var einmitt með einn sem var alveg einstakt gæða fley og hafði fengið mjög góða dóma í blöðum sem hann átti og sýndi kaupandanum allskonar test og álit sérfræðinga. Að lokum keypti náunginn kayakinn góða og fór með hann heim. Hann reri nokkrum sinnum á þessum fína eigulega kayak og líkaði stórvel við hann. Þegar hann fékk vinnu úti í löndum þar sem að kayaróður er mikið stundaður, tók hann gripinn með og hugsaði sér gott til glóðarinnar. Paradís ræðarans var framundan.
Róið var eins oft og mögulegt var. Eftir árið var verki lokið og vinurinn ákvað að róa á milli bæja þarna í landi kayaksins og ætlaði sér viku í það. Fékk hann vin sinn til að koma með en sá hafði eitthvað minna róið um ævina . Ferðin gekk að óskum og segir ekki af þeim fyrr en á síðasta legg ferðarinnar. Samkvæmt róðrar hraða fyrri daga átti þessi leggur að taka 6-8 klst og sjórinn var spegilsléttur eins og alltaf. Að vísu var eitthvað af ís á leiðinni en það olli þeim ekki miklum áhyggjum. Lagt var af stað hæfilega snemma morguns og talstöðin tekin með til öryggis. Matur og drykkjarvatn osfr. Róið var rösklega og ákveðið í áttina að lokatakmarkinu sem var ekki langt frá í loftlínu að sjá á kortinu. Þegar þeir koma að fyrstu ísjökunum finnst þeim allglannalegt að vera alveg uppvið þá svo að sveigur er tekinn á beinu leiðina og róið útfyrir. Eftir 12 klst róður er skollið á niða myrkur og ekki sést handaskil. Vinirnir eru búnir með matinn og drykkina og vita ekki hvar þeir eru nákvæmlega. Nú eru góð ráð dýr. Talstöðin tekin fram og kallað "MAYDAY þrisvar" en þá dofnar á batteríinu og ekkert heyrist svarið. Í rauðbítið um morguninn kemur lítill fiskibátur og tekur félagana upp og kemur þeim í örugga höfn.
Ég hef þessa sögu ekki lengri en hún kemur upphaflega frá öðrum ræðaranna. Ekki snerti hann sjókayak framar eftir því sem ég kemst næst.
Kv.
Ingi