Já þetta er vísast rétt hjá Sævari, kosningar eru framundan til borgarstjórnar. Við höfum samt ábyrgð og þekkjum þetta svæði betur en flestir borgarbúar og reynslan er ólygin um hvað hefur gerst. Þeir sem muna jafn langt aftur og við Sævar, eiga í huganum minningar um allt aðra strönd en börnin í Reykjavík þekkja nú.
Ég gekk með leikfélögum mínum um fjöruna allt frá Advania við Borgartún upp að vöruhóteli Eimskip við Sundahöfn og þar voru mörg ævintýri og mörg falleg fjaran. Ég sat oft á grastó í friðsælum skúta uppi í litlu bjargi ofan við flæðarmálið u.þ.b. þar sem nú er Hringrás og horfði út Viðey og fékk mér af og til sundsprett. Þegar Vestmannaeyingar grétu æskustöðvar sem hurfu undir hraunið fann ég að mínar æskustöðvar voru einnig horfnar.
Umhverfi Fjósakletta með tveim hreinum sandfjörum eru þess virði að varðveita fyrir síðari kynslóðir, ekki bara einhver kjörtímabil. Best væri að gamla Áburðarverksmiðja yrði hreinsuð burt og svæðið út á nesið gegn Fjósaklettum væri autt með lágreistum fallegum byggingum að baki, fyrir sjósportfólk.
PS: Ég er ekki að fara í pólitík