Eldri ræðarar taka í árina

18 jan 2014 19:05 #1 by Sævar H.
Og nú er komið að sögustund eftir innlegg Gísla H.F:

Ég er nú vel kunnur hafinu bæði í blíðu og stríðu.
Eins og fram kom í bók Gísla H.F þá hóf ég farmennsku aðeins 17 ára gamall og sigldi fyrstum sinn um strandlengju Íslands en síðan um heimshöfin-suður til Suður Ameríku , austur í botn Svartahafs - Norður Íshafið- til meginlands Ameríku og suður í Mexicóflóa- nokkuð víðförull orðinn ,rúmlega tvítugur.
Það var bæði siglt í logni og síðan í bland við fárviðri.
Og hrikalegasta sjólag sem ég hef lent í var suður af Nyfundnalandi í desembermánuði á leið frá Frakklandi til Texas.
Ölduhæðin í þessu ofsaveðri var yfir 30 metra og varð okkur þung í skauti.
Hluti af lunningu skipsins brotnaði upp í einu heljarálaginu og setja varð á hægustu ferð móti stórsjónum.
Á fjórum sólahringum rak okkur til baka undan veðrinu um 400 sjómílur – þá hafði veðrinu slotað það mikið að við gátum farið í að skera lunningardræsuna frá og í hafið—já- við ég og yfirvélstjórinn vorum bundnir við formastrið meðan athöfnin fór fram. Og að því loknu var hægt að setja aftur á fulla ferð.
Þannig að ég hef ýmsan sjóinn sopið- en blíðan eins og við Hörður fengum í gær var í raun-himnesk.
Skoðiði bara myndirnar. :-)

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

18 jan 2014 18:24 - 18 jan 2014 18:30 #2 by Gíslihf
Ekki er víst að þeir, sem lesa innlegg okkar Sævars um erfitt sjólag eða blíðu, skilji um hvað málið snýst. Sævar vill blíðu og nánd við land og lífríki en Eggert Ólafsson virðist lofa háskann til sjós í vísunni. Báðir ná þó að njóta stundarinnar og allar áhyggjur og leiðindi eru fjarri. Við skulum þó ekki gleyma því að Egggert fórst ásamt brúði sinni í slíkum háska á leið úr Skor inn Breiðafjörðinn.
Tveim árum áður, eða 1766 var hann að flytja heim frá Kaupmh. Þá kemur hann með skipi að Suðurströndinni. Hekla er að gjósa og það er veðurblíða fyrir landi. Þá lofar hann blíðuna og það er eins og dansandi höfrungar og fuglar fagni honum. Tvö erindi í þessu kvæði eru þannig ( "fiska tún" = hafflöturi) :

Ég hef fengið jómfrúr byr
jafnan, hægan, blíðan;
engan svo ég átti fyr
æsklega þýðan.

Landsins fugl um fiska tún
finnur hrelling önga,
heldur mót oss hafs á brún,
hefja kvak og sönga.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

18 jan 2014 17:42 #3 by Ingi
Replied by Ingi on topic Eldri ræðarar taka í árina
Flottir.:)

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

18 jan 2014 02:16 #4 by skulihs
Þetta eru óskaplega fallegar myndir, hreinlega unun að skoða.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

17 jan 2014 20:30 #5 by Sævar H.
Nei Gísli . Ég var að hugleiða að setja inn í textann " Varúð , ekki fyrir viðkvæma fyrir logni á sjó" En þetta veðurfar og sjólag er einkum eftirsóknarvert fyrir þá sem eingöngu eru við náttúruskoðun við hugnæmar aðstæður. Sjálfur hef ég ekki heillast af kayak nema sem fleytitæki og fremur þægilegu til ísetu og nálgunar áhugaverða staða. Um veltur , áratök og allt svoleiðis er mér nákvæmlega sama um- það heillar mig ekki. :-) Kveðja.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

17 jan 2014 20:11 - 17 jan 2014 20:17 #6 by Gíslihf
Eggert Ólafsson er torskilinn í sumum ljóðum sínum en eftirfarandi vísa er þó auðskilin:
  • Þó að háski sýndi sig,
  • sjós í miðju kafi,
  • veraldar hyggja mæddi mig
  • minnst í reginhafi.
Þetta geta ræðarar sjókeipa tekið undir og staðfest að í miðri veltu, í háskasjó eru allar búsorgir á bak og burt og argaþras hvunndagsins víðs fjarri. Þá er aðeins eitt sem fangar hugann, að komast upp úr veltunni :)
Myndirnar úr róðri dagsins benda þó ekki til þess að þið hafið náð þessu djúpa stigi alsælu og núvitundar! (Finn engan broskall )

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

17 jan 2014 16:44 #7 by Sævar H.
Það var um kl 11:00 nú í morgun þann 17.1.2014 að við Hörður K. fórum í róður frá Bryggjuhverfinu í Arnarnesvogi og rérum út í Löngusker og höfðum viðkomu í Seylunni á Álftanesi þar sem tekið var kaffistopp og smá piss viðhaft.
Stillilogn var á Skerjafirði - hvorki vindgára né haföldugára.
Nokkuð skemmtilegt skýjafar var á himni .
Hiti var um 3 °C .
Við tókum land í Hólmi sem er austasta sker Lönguskerjaklasans og áttum það flotta útsýnisstund. Ekki var alveg komin fjara þannig að við fengum ekki að lenda í skeljasandsfjörunni góðu- hún var um hálfum metra undir yfirborði.
Síðan var þverað yfir á Álftanesið og tekið land á norðanverðri Seylu og kaffi drukkið.
Að því búnu var róið með Álfranesi að Eskinesi við Gálgahraun og þverað þaðan að Bryggjuhverfinu.
Róðurinn varð um 11 km .
Við fengum skemmtilega samfylgd frá Lönguskerjum. Ungur og sprækur selur elti kappana.
Meðfylgjandi er nokkrar myndir frá ævintýrinu.
Himininn speglar sig í sænum við Löngusker

plus.google.com/photos/11326675796839424...13266757968394245330
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum