Náttúrupassinn

29 jan 2014 21:24 #1 by Jói Kojak
Replied by Jói Kojak on topic Náttúrupassinn
Gummi, ég man ekki lengur hvað við borguðum mikið í Slóveníu. Minnir að það hafi verið frekar lág upphæð. Peningarnir eru síðan notaðir til að halda svæðinu hreinu og halda úti salernisaðstöðu meðfram ánni.

Annars er ég sammála um að mér hugnast heldur ekki að þurfa að borga aðgangseyri að náttúrunni. Ég vil að þeir sem gera útá náttúruna borgi. Hvort þeir síðan bæta því ofan á miðaverð eða ekki er mér slétt sama um.

Ég treysti því að stjórnvöld klúðri þessu.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

29 jan 2014 20:31 #2 by skulihs
Replied by skulihs on topic Náttúrupassinn
Get alveg tekið undir það hjá Gísla að sú leið að setja þetta í komu- eða brottfarargjöld er ekki gallalaus leið frekar en annað. Held samt að hún sé skárri en hinar. Þetta er auðvitað bara skattur sem bætist við annað, en bjútíið er að með þessu nær þetta til allra 700 þús ferðamannanna eða milljón ferðmanna eða hvað það verður, þmt. skemmtiferðaskipanna og ráðstefnugesta. Þetta þarf ekki að vera há upphæð til að skila góðri summu.
Málið er þetta að við viljum að kostnaður sem fylgir öllum þessum túrisma sé greiddur af túristunum, en jafnræðisreglur innan EES svæðisins segja að sömu reglur þurfa að gilda óháð þjóðerni. Því er ekki hægt að undanskilja íslenska ríkisborgara gjaldinu. Ef náttúrupassinn yrði niðurstaðan (sem er greinilega það sem stefnt er að) er alveg eftir að skilgreina hvar þetta gildir og hvar ekki. Er það strax þegar farið er úr bænum eða bara einhver tiltekin skilgreind svæði, er það allt hálendið, er það t.d. öll Mývatnssveit og þarf fólk sem ætlar að heimsækja íbúa þar að borga til að mega það o.s.frv. Semsagt, endalaus tækifæri fyrir stjórnvöld að klúðra málinu og gera þetta óþolandi.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

29 jan 2014 19:06 #3 by Gummi
Replied by Gummi on topic Náttúrupassinn
Segir ekki í gömlum og góðum vatnalögum að öllum sé frjáls för um ár og vötn, svona lög taka varla fram fyrir landslög ?
Annars veit ég að þeir sem ætla að róa kayak niður Soca í Slóveníu þurfa að borga fyrir ferðina til ríkisins. En síðan er slatti af mönnum sem taka sénsin á að hitta ekki vörðinn, en ef þeir eru teknir fá þeir líka að borga margfalda sekt. Það er líka leið sem má alveg fara en mér hugnast ekki að þurfa sem þegn þessa lands að borga aðgangseyri að náttúru landsins.
Ég tek líka undir að maður á að passa sig á að steinþegja um faldar perlur landsins og leyfa túristunum að njóta gullna hringsins á meðan við hin höfum annað út af fyrir okkur.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

29 jan 2014 16:24 - 29 jan 2014 16:24 #4 by SPerla
Replied by SPerla on topic Náttúrupassinn
Svo er það spurning hvort ekki sé hægt að leggja skatt á ferðamenn þegar þeir koma inn í landið eða fara út úr því. Svipað og er gert í NZ og víðar (Kiwi búar rukka NZ$25 þegar þú yfirgefur landið) og sá peningur notaður í uppbyggingu ferðamannastaða.
En sama hvaða leið yrði farin að þá eins og Gísli segir er alltaf hætta á að þeim pening yrði úthlutað í eitthvað annað verkefni,

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

29 jan 2014 16:07 - 29 jan 2014 16:28 #5 by Gíslihf
Replied by Gíslihf on topic Náttúrupassinn
Jæja, þetta og önnur gagnrýni á náttúrupassann sem ég hef kíkt á sýnir greinilega fram á slæma ókosti. Svo er tortryggnin í garð stjórnvalda skiljanleg í ljósi reynslunnar. Hver man ekki eftir Þjóðarbókhlöðunni og sölu Landssímans til að byggja nýtt sjúkrahús?

En - er hugsanlegt að komugjöld hafi líka galla. Þau verða þá hluti af verði farmiða. Þeir sem velja að ferðast erlendis í stað þess að fara um landið borga þá fyrir okkur sem höldum okkur heima. Þeir sem skreppa til Wales í róður borga þá fyrir göngustíg í Morsárdal eða kamarlosun á Lónsöræfum. Er þetta rökrétt.

Ef peningarnir sleppa svo út úr ríkiskassanum aftur, sem er jafnmikil ástæða til að efast um og í náttúrupassalausninni, þá er næsta spurning hvernig á að deila fénu út.

Er ekki skásti kosturinn að rukka á nokkrum vel afmörkuðum stöðum, sem gefa mikið af sér og nota auk þess almennt skattfé til að hafa aðgengi og hreinlæti til sóma. Slíkir staðir eru Þingvellir, Gullfoss, Geysir, Mývatn, Ásbyrgi og þjóðgarðar og e.t.v. fáeinir aðrir. Erlendis minnist ég þess að hafa greitt inn í þjóðgarð í Utah og þegar ég rölti upp á Vesúvíus.

Ég man ekki eftir að hafa greitt inn í Pompei - þar tók ég ekki eftir vörðum fyrr en mér datt í hug að rannsaka rör sem ég sá glitta í milli húsarústa, tók ítalska líru milli fingra og klóraði í rörið. Viti menn, þar gljáði grátt blýið sem Rómverjar notuðu í vatnsleiðslur, eins og ég hafði lært í mannkynssögu Ólafs Hanssonar. Um leið spruttu upp verðir kringum mig:)

Er hugsanlegt að við getum lært af öðrum þjóðum eða erum við alltaf klárari en allir aðrir?

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

28 jan 2014 22:03 - 28 jan 2014 22:04 #6 by Sævar H.
Replied by Sævar H. on topic Náttúrupassinn
Tvær milljónir ferðamanna . Og stór hlutinn yfir sumartímann. Þetta kallar á skipulag og eftirlit. Því miður landið er ekki okkar lengur eins og var bara fyrir svona 5- 10 árum. Og ferðamannastraumur kemur bara til með að aukast. Ísland er komið á kortið sem eitt af glæsilegri ferðamannalöndum heims. Er ekki að verða óslitin halarófa ferðamanna- Landmannalaugar Þórsmörk ? Já, Langisjór og jafnvel Hvítárvatn gætu lokast án gjaldtöku. Hvalfjörður ? Það er ljóst að miklar breytingar eru framundan fyrir ferðamenn. Nú er eiginlega æskilegra að halda flottum stöðum leyndum en að upplýsa um einhver gæði. Breyttur heimur á Íslandi.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

28 jan 2014 21:31 #7 by skulihs
Replied by skulihs on topic Náttúrupassinn
Þó ég sé ekki mjög virkur innan klúbbsins og rétt nýkominn á félagaskrá stenst ég ekki mátið að blanda mér inn í þessa umræðu. Þakka Gísla fyrir að hefja máls á þessu, ég er að vísu algjörlega samþykkur ályktuninni en held að það sé mjög brýnt núna að útivistarfólk af öllum gerðum taki umræðu um þetta áður en málið verður afgreitt á Alþingi.
Ég var á fundinum þar sem þetta var samþykkt sem einn af fulltrúum Útivistar, en vegna málefnisins var nokkuð fjölmennt úr Útivist. Anna Dóra Sæþórsdóttir var með athyglisvert erindi þarna og dró upp nokkuð skýra mynd af þessu. Játa að ég var nokkuð jákvæður á þessa hugmynd en hef snúist algjörlega. Ég held að flestir séu á því að það þarf meira fjármagn til að vinna að úrbótum á fjölförnum ferðamannastöðum og að því eru nokkrar leiðir en þrjár leiðir mest í umræðunni. Ein leið og sennilega sú versta er að rukka á hverjum stað fyrir sig, suðurströndin væri þá þannig að það væri rukkunarskúr við Seljalandsfoss, annar við Skógafoss, einn við Reynisdranga o.s.frv. Með náttúrupassanum er kannski komist hjá þessu en samt færi heilmikið af innkomunni í eftirlit ef það á að vera eitthvað vit í þessu. Báðar þessar leiðir hafa hins vegar þann ókost að þær beina fjöldanum á þá staði þar sem ekki er gjaldskylda og þá eru það staðir sem hugsanlega þola ekki álagið. Það gerðist t.d. þegar var gjaldtaka á Höfða við Mývatn, en þá fór ferðafólk aðrar leiðir til að skoða drangana sem draga þarna að fjölda fólks með tilheyrandi traðki á viðkvæmu svæði. Það sem pirrar mig hins vegar mest við hugmyndina er að með þessu þurfum við að fara að borga fyrir skoða landið okkar. Við höfum litið svo á að náttúra landsins sé sameign þjóðarinnar og það skiptir máli fyrir þá tilfinningar sem við berum til landsins. Ef við þurfum að fara að borga aðgangsmiða til að fá að ferðast um landið verður klárlega ákveðið rof í því. Ef þú ert ekki með passann áttu á hættu að vera rekinn burt, mátt ekki horfa og njóta landsins. Þar fyrir utan, við byggðum upp aðstöðu, göngustíga og annað í náttúruperlunum okkar með sköttunum og þátttöku í sjálfboðaliðastarfi félaga eins og FÍ, Útivistar og fleiri áhugamannafélögum. Er réttlæti í því að núna þegar túristum fjölgar meira en náttúruperlurnar okkar þola að óbreyttu séum við látin borga fyrir aðgang?
Fulltrúar einstakra félaga í samtökum eins og Samút geta oft verið í erfiðri aðstöðu. Það getur oft verið snúið að fá línu frá stjórn félagsins um öll mál sem koma til umræðu, hvað þá frá almennum félagsmönnum. Klassískt vandamál fulltrúalýðræðis, en því meiri umræða sem er í gangi á fundum og á spjalli, því betur getur fulltrúinn speglað félagið. En hvað sem því líður veit ég að Ásta er öflug í þessu stafi innan Samút.
Kv - Skúli

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

28 jan 2014 19:54 - 28 jan 2014 20:26 #8 by Orsi
Replied by Orsi on topic Náttúrupassinn
Sælir, góðar spurningar.
Eftir því sem ég hef lesið, þá þyrfti t.d. að sýna náttúrupassann við náttúruperlur þar sem er landvarsla, eða hreinlega þartilgert gjaldskýli sem sett yrði upp í þessum tilgangi, Herðubreiðarlindir og Dettifoss, Mývatn og Gullfoss og Geysi, Landmannalaugar og slíkt. Það yrðu landverðir og lögregla sem gætu spurt eftir passanum og íslenskt vegabréf gildir ekki. Íslendingar jafnt sem útlendingar skulu kaupa passa í skýlinu. Eða eiga árskort (hugsanlega svipað fyrirkomulag og með aðgang í Hvalfjarðargöng ímynda ég mér).

Það er óvíst að sýna þyrfti passann fyrir sjókayakræðara, sem sjósetja þar sem allajafna er ekki ferðamannstraumur. En kayakferð á Langasjó myndi að mínu viti útheimta passa. Aðgengi að ám og vötnum, mætti sjá fyrir sér að útheimit passa, ef farið er í gegnum landssvæði sem þarf svona vegabréfsáritun. Og að koma við á Þingvöllum á heimlieðinni til að taka mynd af Öxarárfossi einnig, svo áfram mætti telja.
Umhverfisþing 2013 er mótfallið þessari hugmynd og bent hefur verið á að náttúrupassi sé vanhugsaður og órannsakaður.
Skoðið þetta líka sigsig.blog.is/blog/sigsig/entry/1327377/

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

28 jan 2014 18:17 - 28 jan 2014 18:24 #9 by Gíslihf
Replied by Gíslihf on topic Náttúrupassinn
Takk fyrir að upplýsa hvernig þetta er til komið. Ég hef nú strikað yfir hið persónulega niðurlag - best að hafa alla umræðu málefnalega en ekki persónlega.
Þá stendur eftir spurning orðuð með nýjum hætti:
  • Sjáum við fyrir okkur að það mundi þurfa að sýna náttúrupassa til að mega róa um ár og strendur landsins?
  • Hvar þyrfti að framvísa passanum? Mun ísl. vegabréf duga, erum við ekki að tala um sameign þjóðarinnar?
  • Hingað til hefur okkur aðeins verið meinuð umferð um Ölfusá og er ekki víst að áhugi væri nú mikill vegna mengunar neðan við Selfoss.
    PS: Orðið er laust, þetta eru ekki spurningar til formannns.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

28 jan 2014 17:25 #10 by palli
Replied by palli on topic Náttúrupassinn
Sæll Gísli og takk fyrir ábendinguna.

Ásta Þorleifsdóttir er fulltrúi Kayakklúbbsins í Samút og hefur verið til margra ára. Hún hefur staðið vel vaktina þar að mínu mati og gætt hagsmuna kayakfólks. Hún var viðstödd þennan fund og er samþykk ályktuninni en það verður að viðurkennast að enginn úr stjórn klúbbsins vissi af því að nafn hans yrði ritað þarna undir. Þess má geta að á síðasta aðalfundi var samþykkt að Ásta myndi ásamt Reyni Tómasi og Sveini Axel vinna að athugasemdum til Alþingis vegna nýju náttúruverndarlaganna. Hún er því enginn nýgræðingur í því að líta eftir hagsmunum okkar og hafi hún þökk fyrir það. Samskipti fulltrúa klúbbsins hjá Samút og stjórnar verða nú endurskoðuð í framhaldinu. Sjálfur tek ég á mig fulla ábyrgð á því að þetta hafi farið svona í gegn þar sem ég hefði átt að fylgjast betur með að þetta stæði til hjá Samút, og upplýsa stjórn svo hún gæti kynnt sér málið og staðið með því eða á móti. Ég mun ekki gefa kost á mér í áframhaldandi formennsku í klúbbnum á aðalfundinum í næstu viku.

Persónulega finnst mér þetta vera góð ályktun og rétt. Einnig finnst mér hæpið af þér að stilla þessu þannig upp að fyrst ég er á móti náttúrupassanum þá sé ég ekki hlynntur því að sóðaskapur hætti að trufla ljúfa samvist þína við umhverfið. Að sjálfsögðu styð ég það heils hugar þótt ég telji aðrar aðferðir en náttúrupassi geta verið betri leiðir að því markmiði. Ályktunin leggur til að tekin verði upp komu- og brottfarargjöld og ég held að það sé einföld og ágæt hugmynd.

Bestu kveðjur

Palli Gests

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

28 jan 2014 09:47 - 28 jan 2014 18:04 #11 by Gíslihf
Náttúrupassinn was created by Gíslihf
Ég sé í Mbl. í dag að ég er á móti náttúrupassanum, sem félagi í klúbbnum, en líklega er ég fylgjandi honum sem félagi í Ferðafélagi Íslands. Í klúbbnum hefur engin formleg umræða eða atkvæðagreiðsla farið fram um málið eins og lýðræðisleg félög starfa. Ég vona að þetta hafi þó a.m.k. verið rætt í kaffipásum í róðrum undanfarið. Almenningur ályktar nú trúlega að kayakræðarar telji náttúrupassann muni "vega stórlega að almannarétt ... til að ferðast (=róa) frjálst um eigði land (=strendur og ár). Úr því að stjórn tók þessa ákvörðun fyrir okkur án þess að láta félaga vita er nú eðlileg kurteisi að rökstyðja þetta. Þá vitum við, hinn óbreyttu, hverju við eigum að svara!
Persónulega hef ég haft jákvæðar væntingar til náttúrupassans, hef séð fyrir mér að ég gæti hugsað mér að rölta Laugaveginn í 8 sinn eftir langt hlé, ef sóðaskapur mundi hætta að trufla ljúfa samvist við umhverfið, svo að dæmi sé tekið. Ekki er að efa að önnur viðhorf og rök vega þungt, en erum við ekki sammála um að verið er að spilla landinu og eitthvað þarf að gera?

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum