Í tilefni af myndum og öðrum veiðisögum þá kemur ein hérna alveg splúnkuný frá því um helgi og er þetta tekið frá mág mínum sem stundar veiðar á smábát.
Þetta segir manni að koma sér út að veiða næstu daga því nóg virðist vera af þorsk hér við borgarmörkin.
Jæja og haldið ykkur nú. Í dag setti ég í stærsta þorks sem ég hef á ævinni séð. Já og ég sá hann ekki bara, ég setti gogg í hann og reyndi árangurslaust að ná honum inn fyrir borðið. Það var laust í honum þannig að ég varð að taka hann inn. Það sem verra var að það var annar fyrir neðan hann og sá ekki af minni gerðinni sem togaði alltaf á móti mér hvað sem ég reyndi, það sem kann að hafa valdið máttleysi mínu var að ég var búinn að fiska rúm tvö tonn þegar kvekvendið birtist. Nú voru góð ráð dýr, ég tosaði í tauminn eins og ég gat, tók haka og tróð ofan í ginið á honum, fastur á öllum fjórum. Tók hakann út fyrir rúllurnar og dró skepnuna aftur fyrir bátinn. Nú er rétt fyrir þá sem eru spenntir að loka augunum, ég klofaði yfir rekkverkið, fór út á röradraslið sem er yfir drifinu, það kom einhver smá veltingur og gamli lenti klofvega á rörið báðar lappir á bólakaf, en ég sleppti ekki tröllinu, tókst að tosa hausinn á skepnunni upp á rörin en lengra komst þetta ekki. Gat teigt mig í spotta sem ég reyndi að troða ofan í fiskinn sem ekki var auðvelt, því þar var haki fyrir og það sem gerði málið enn erfiðara var að hann var ( já var ) um þriggja metra langur.
Við það að bisast með bandið, missti ég hakann, hann dró tröllið frá mér og ég sá hann líða hægt frá mér í hafið. Já fiskurinn var stærri en ég, sem þýðir að hann var vel á annan meter, og miðað við þær beljur sem voru að fara í körin, þá var hann ekki undir 50 kílóum og þó nær 60. Í eitt skiptið sem mér tókst að draga hausinn á honum í átt að mér, þá dró fyrir sólu, ég segi það satt. Hvað stendur upp úr eftir daginn. Einn drullufúll yfir því að hafa misst þennan fisk, en gleymir að gleðjast yfir því að hafa fengið á milli 2.5-2.7 tonn.
Ég ætla að gleðjast, ekki bara yfir aflanum, heldur yfir því að á botninum úti fyrir Valhúsabauju er níðstöng, þriggja metra löng og hún stendur beint upp í loftið og á endanum er sá stærsti þorskur sem sennilegast hefur veiðst við Íslandsstrendur frá landnámi.
Þeir vinir mínir sem eru á netum mega færa mér hakann þegar hann kemur um borð. Góðar stundir.