Eitt sinn ákváðum við Guðni Páll, Lárus og einn enn sem ég man ekki nafnið á að fara í róður frá Geldinganesi. Varla í frásögur færandi nema hvað veður var frekar óhagstætt til útiveru svona heilt yfir. en þar sem við vorum mættir gat enginn eða þorði kannski enginn að taka af skarið og segja að það væri ófært. Vindur var eitthvað á milli 20 og 30metrar á sekúndu af suðri eða suðvestri og frekar kalt þó ekki frost en kannski nálægt frostmarki. Menn gölluðu sig vel og báru keipana í fjöruna vestanmegin. Þetta hlýtur að hafa verið eftir hádegi á þriðjudegi eða miðvikudegi en ég man það ekki, kannski er hægt að finna einhverja pósta um þennan róður en það varð ekki lítil sprengja sem sprakk á síðum korksins eftir að Guðni Páll hafði sett smá pistil um afrekið.
Til að gera langa sögu stutta þá héldum við út og rerum upp í rokið og ætluðum að þræða með ströndinni að Fjósaklettum. En það fór nú ekki alveg eins og róðraráætlunin hafði verið plönuð. Það gekk á ýmsu að komast á flot og þegar sá fjórði var komin út var byrjað að baksa á móti rokinu. Einum ræðara tókst með engu móti að ná stefninu uppí svo að hann flatrak meira og minna í áttina að Geldinganesinu og hvolfdi svo á leiðinni. Það reyndi því á alla björgunarhæfileika félaganna og þegar komið var að bátsflakinu sem enn mótar fyrir á suðurströnd nessins var loksins hægt að koma ræðaranum upp í sinn kayak og heimferðin hófst. Sgja má að við höfum fengið hina fínustu björgunaræfingu út úr þessu en það þurfti að draga og halda við og baksa á fullu gasi í sirka hálftíma áður en við komumst aftur á byrjunar reit.
Burðurinn á keipunum var talsvert erfiður en það hafðist að koma öllu draslinu heim óskemmdu.
Í búningsklefanum var svo tekinn smá umræða um "æfinguna" Við vorum sammála um að þetta hafi verið hinn skemmtilegasti róður. Allir nema einn sem taldi að í of mikið hafi verið færst í fang. Guðni Páll var samþykktur sem róðrarskýrsluhöfundur og hann beðinn sérstaklega að spara ekki lýsingarnar.
Ekki sáum við fyrir þær svakalegu umræður sem urðu á korkinum næstu daga á eftir. En þessi róður er oft rifjaður upp við ýmis tækifæri. Allir komu reynslunni ríkari heim og hugsa sig um tvisvar við áður en lagt er af stað í svona aðstæður.
kv
Ágúst Ingi