Það er ekki miklu við þetta að bæta, enda helstu sjónarmið komin fram. Við erum flest gerð úr „sama efni“, sumir eru þó betur einangraðir en aðrir og það er ekki hægt að bera sig saman við Guðlaug, en ég bjó í Eyjum þann minnisstæða dag, þegar hann barði blóðugur og rosalegur að dyrum hjá „Atla í Steypustöðinni“, sem bjó uppi undir Helgafelli. Tilraunir sýndu fram á það að hann var sérstakur, en hann var lagður í íspækil og mældur innan sem utan.
Ég get fátt hugsað mér dapurlegra en að vera einn út á hafi og missa bátinn frá sér eins og virðist hafa hent ræðarann sem var á leið til Nýja Sjálands fyrir u.þ.b. ári ef ég man rétt, nema e.t.v. að vera geimfari sem svífur frá fari sínu!
Við Sævar erum komnir á aldur karlaraupsins og það kemur mér á óvart að mér finnst það skemmtilegt - þegar einhver nennir að hlusta! Ég held að Stein Ex-formaður sé á hraðri leið þangað líka en ég læt sjálfur eina nýlega (jóla)sögu fylgja:
Áður en ég lagði í Hornstrandaferð Kaj-félaga vildi ég sannreyna hvort ég væri hæfur í slíka ferð. Ég fékk því Lilju mína til að skutla mér í Nauthólsvíkina á laugardegi og bað hana að sækja mig síðar á eiðið við Geldinganes, en ekki átti ég von á að einhver nennti að fara með mér – auðvitað hefði ég átt að auglýsa eftir félaga á Korkinum. Vindur var vestan og róður sóttist nokkuð seint meðfram Seltjarnarnesinu og út fyrir golfvöllinn. Það braut á boðum og þegar aldan fór að verða á hlið varð ég stífur og óöruggur og óttaðist að velta, en vonaði þá að sleppa lifandi upp í fjöru, en að lemstrast eitthvað í fjörugrjótinu væri ekki málið. Ég vonaði innilega að brotin sem mynduðust hér og hvar á öldunum færu alltaf framhjá mér. Ég hef enn ekki orðið hræddari á kayak en þarna, en slysalaust slapp ég síðan gegnum mesta lensið og tók land í vari austan í Akurey. Þar hvíldi ég mig vel góða stund, en aðfall var og þegar ég áttaði mig var báturinn lagður af stað. Sem betur ver var aðgrunnt og náði ég að vaða hann uppi.
Að lokum tel ég mikilvægt að halda ró sinni þótt mikið gangi á, bera fulla virðingu fyrir kröftum náttúrunnar og vinna með þeim en ekki á móti. Svo er stóra spurningin hvort maður er alveg einn í heiminum þegar öll sund virðast lokast?
Ég óska öllum félögum gleðilegra jóla og þess að komast heilir í land á næsta ári.
Kveðja, GHF.