Heldur finnst mér þetta óvarlega sagt; að fólk syndi þegar kajakinn er fokinn í burtu eða sokkinn. Þeir þrír sem hafa dáið á sjókajak á liðnum áratugum 1951-2006 kunnu örugglega allir að synda. Eða Svíinn sem missti bátinn í kaf og dó í fyrra.
Maður í sjó getur í raun ekkert synt, nema hann sé örfáa metra frá landi og vanur að vera í sjó og í besta galla og um hásumar. Ég efast jafnvel um að sjósundæfingamennirnir Palli Gests eða Gummi B og slíkir myndu treysta á sundið í óhappatilviki á kajak.
Að synda í sjó þegar báturinn er farinn er ekki raunhæf björgunarleið, heldur á að koma sér upp í bátinn sem fyrst. Í því skyni þarf að þjálfa sig upp í að halda bátnum alltaf hjá sér, synda rólega meðfram honum eftir atvikum og alltaf að halda sér í dekklínur - en allra helst: hreyfa sig sem minnst í sjónum til að tefja ofkælingu. Það er tómt mál að tala um að leggjast bara til sunds þegar báturinn er farinn. Kannski má svamla nokkra metra í átt að félagabjörgunarmanni sem kemst ekki nær eða slíkt..
Sundkunnátta kemur almennt að engu gagni í þeim kalda sjó sem sjósportið er stundað í. Þá er það velta, reentry eða félagabjörgun sem er málið. Sumir eru með snúru í sér og í bát.
Aðalreglan. Komdu þér uppí bátinn.
Þeir hjá BCU eru meira að segja búnir að henda í ruslið kenningunni um að synda með bát í land ef óhapp verður í brimi. Enn og aftur: komdu þér uppí bátinn og lærðu að róa honum fullum af vatni.
Þessvegna: Haltu bátnum hjá þér, æfðu endurinnkomu í bátinn, aldrei missa hann frá þér. Ekki streða í sjónum. Ekki synda.
Enn og aftur: Komdu þér uppí bátinn.
En þessi sundnámskeið eru frábær til að gera fólk betra í sundlaugarsundi.
Ég gat bara ekki annað en rýnt til gagns í þá yrðingu að sundkunnátta geri eitthvað fyrir mann í sjó, nema í algerum undantekingatilvikum sem varla eiga við. Það er varhugavert að koma svoleiðis hugmyndum inn hjá byrjendum. Þeir eiga að læra að halda bátnum hjá sér, forðast ofkælingu og hreyfa sig sem minnst í sjó en ekki vera með falsvonir um að góð sundkunnátta bjargi einhverju. Þessi vefur ætti að boða raunhæf björgunarúrræði. Sjósportið er að vaxa mikið og byrjendur eru að lesa þennan vef.
Ef þetta voru of hörð viðbrögð hjá mér miðað við tilefnið, þá afsakið Óli.