Eftir fundinn í gær var aðeins rætt um raðróður um Reykjanesið. Ég hef verið að skoða þetta síðustu vikur og stefni á að róa frá Geldinganesi til Þorlákshafnar í 7-9 miserfiðum dagleiðum. Ég hef hugsað mér að nota sunnudagana í þetta til að byrja með og klára fyrst leiðir 1-4 í þeirri röð sem hentar best miðað við veður. Í slæmum veðrum væri hægt að taka aðra og þriðju dagleið í fjórum stuttum dagleiðum. Dagleiðir 5, 6 og 7 ætla ég að undirbúa sérstaklega og bíða með þær fram á vorið.
1. dagleið: Geldinganes-Hafnafjarðarhöfn, 28 km.
2. dagleið: Hafnafjarðarhöfn-Kúagerði, 15 km + Kúagerði-Njarðvík, 20 km
3. dagleið: Njarðvík-Garðskagaviti, 16 km + Garðskagaviti-Hafnir, 20 km
4. dagleið: Hafnir-Reykjanesviti, 18 km
5. dagleið: Reykjanesviti-Ísólfsskáli, 25 km
6. dagleið: Ísólfsskáli-Herdísarvík, 23 km
7. dagleið: Herdísarvík-Þorlákshöfn, 25 km
Mér heyrist að það séu nokkrir klúbbfélagar spenntir fyrir þessu og það væri gaman ef einhverjir myndu fljóta með. Þessi raðróður hentar þó ekki byrjendum.
Markmiðið mitt er að klára raðróðurinn áður en laxinn fer að ganga í árnar og taka mestu skorpuna í þessu í maí.
Ég stefni á að byrja á þessu strax á sunnudaginn og klára a.m.k. annan hlutann af dagleið 2.
Hvernig líst mönnum á þetta, og eru einhverjir sem vilja taka þátt?