10.ágúst 2009
Að loknum sjóróðri um norðanverðan Breiðafjörð
Á tjaldstæðinu á Bæjarey-Akureyjum
Þetta var afbragðssjóferð um áhrifamikla náttúru – eyjanna austan og sunnan Reykhóla. Veður sem og sjór – var stillt.
Nokkur kynni fengust af straumum sjávarfallanna . Þegar best lét í einum straumálnum austan Reykhóla sýndi hraðamælirinn á GPS tækinu um 7 km hraða á bátnum- án róðurs-ljúfur ferða máti þar.
Og síðan á leiðinni frá Akureyjum fengust nokkur kynni af Hrúteyjarröstinni , þegar við fórum austan við Arnórseyjar.
Það var mikill fengur í að hafa þá einn reyndasta straumvatnsræðara landsins , hann Gumma J. , við leiðsögn yfir strauminn. Þó straumurinn hafi ekki verið mikill- þá er aðferðin sú sama og við meiri straum.
Tjaldstæðið í vikinni við Naustatanga í Borgarlandi milli Berufjarðar og Króksfjarðar var alveg frábært. Og ekki spillti að koma að á háflóði og fara einnig á háflóði- en útfiri er griðarlega mikið á þessum slóðum.
En þegar komið var í Akureyjarnar var háfjara - en að byrja að falla að. Það verða miklar landsslagsbreytingar þarna við flóð og fjöru. Akureyjarnar eru nytjaðar enn í dag – þó ekki sé lengur búið í eyjunum.
Æðarfuglinn sér um sumarafurðirnar- æðardúnninn er verðmæt vara. Mjög snyrtilegt er á bæjarstæðinu á Bæjarey og öllu vel við haldið. Og gæsaungarnir þrír sem voru teknir í fóstur í vor – buðu okkur velkomin-enda að verða fullorðnar gæsir... Gott var að dvelja í Akureyjum...
Sum okkar luku róðrinum við Innri Fagradal, innan Skarðsstrandar ,en meirihlutinn réri allt til Salthólmavíkur sem er um 10 km austar. Mikil ánægja var með þessa velheppnuðu ferð.
Reynir Tómas Geirsson hefur haft veg og vanda af þessum sjókayakferðum allt frá árinu 2004- um eyjasvæði Breiðafjarðar-í byrjun ágústmánaðar ,ár hvert. Vinsældir þeirra hafa verið miklar enda eitt skemmtilegasta róðrarsvæði landsins . Nú tóku þátt 33 kayakræðarar og stóðu sig allir með prýði.
Allt þar til nú hafa þetta verið róðrar með miklu róðrarfrjálsræði sem var ágætt þegar ekki var mikill fjöldi ræðara – en með vaxandi þátttöku hefur orðið að auka aðhaldið utan um hópinn- til aukins öryggis. Tekin hefur verið upp sama aðferð og notuð var í seinni heimstyrjöldinni við siglingu farskipa yfir Atlantshafið- í skipalestum (convoy) með umsjón herskipa. Sá máti reyndist vel í stríðinu. Öryggið varð meira.
Og nú fara forystukayakmenn með góða reynslu fremst og aftast – síðan eru aðrir á hliðarlínunni til að halda hópnum sem þéttast á róðrinum. Gott talstöðvasamband er síðan stöðugt á milli varðkayakanna.... Síðan eru merkjagjafir með árum þegar stöðva skal róður og þétta hópinn. Allt er þetta orðið hið tæknilegasta. Þegar íslensku skipin sigldu í „convoy „ á stríðsárunum gekk það mjög vel- utan eitt skip sem var gamalt og ganglítið en sjóskip gott. Skip þetta hét Selfoss. Vegna ganghraða teygði hann oft óhæfilega á skipalestinni. Þá brugðu „convoy“ stjórarnir á það ráð að leysa Selfoss undan skyldum skipalestanna- hann sigldi því einskipa til stríðsloka og mörg ár eftir það- farsælt skip...... Kannski er undirritaður að komast í stöðu Selfoss gamla - í kayakconvoy – sumarferðanna....?
En takk fyrir frábæra ferð...sjóferðafélagar.
kveðja, Sævar H.<br><br>Post edited by: Sævar H., at: 2009/08/15 20:45